Viðskipti innlent

Seðlabankinn spáir enn frekari styrkingu krónunnar í ár

Sæunn Gísladóttir skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, gerði grein fyrir vaxtalækkuninni á fundi í gær.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, gerði grein fyrir vaxtalækkuninni á fundi í gær. vísir/anton brink
Seðlabanki Íslands spáir áframhaldandi styrkingu krónunnar til loka næsta árs. Gangi forsendur grunn­spár eftir verður gengi krónunnar í ár að meðaltali ríflega 14,5 prósentum hærra en í fyrra og hækkar um ríflega sex prósent til viðbótar á næstu tveimur árum. Þetta kemur fram í ritinu Peningamálum sem gefið var út í gær.

Árið 2019 yrði gengi krónunnar 3,5 prósentum hærra en gert var ráð fyrir í febrúar, en rétt er að undirstrika óvissuna í þessum spám. Raungengið mun samkvæmt spánni hækka meira en áður hefur verið spáð. Gangi það eftir verður það orðið 11 prósentum hærra í lok spá tímans en á fyrsta fjórðungi þessa árs, sé miðað við hlutfallslegt verðlag.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 25 punkta í gær, og verða nú meginvextir bankans á sjö daga innbundnum innlánum 4,75 prósent. Bankinn spáir meiri hagvexti en hann spáði í febrúar, eða 6,3 prósentum í ár. Frávikið skýrist einkum af meiri vexti ferðaþjónustu en áður var búist við en að auki er útlit fyrir meiri slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár. Jafnframt er spáð 3,5 prósenta hagvexti á næsta ári.

Því er spáð að húsnæðisverð fari að lækka á ný á næsta ári. Raunverð húsnæðis hækkaði um 11,4 prósent í fyrra og hefur hækkað um tæplega 50 prósent frá því að það var lægst í ársbyrjun 2010. Hækkunin er svipuð og á tímabilinu frá ársbyrjun 2004 til ársloka 2007 og er raunverðið nú orðið lítillega hærra en það var hæst í lok árs 2007. Samkvæmt grunn­spánni nær árshækkun húsnæðisverðs hámarki í ár en síðan hægir á henni frá og með næsta ári í takt við aukið framboð íbúðarhúsnæðis og aðlögun tekna og eftirspurnar að langtíma leitnivexti.

Seðlabankinn spáir áfram lágri verðbólgu. Hún mældist 1,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Verðbólga minnkaði lítillega framan af ári en jókst á ný í apríl þegar hún mældist 1,9 prósent. Verðbólga hefur því verið við eða undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í ríflega þrjú ár en það má að miklu leyti rekja til innfluttrar verðhjöðnunar og hækkunar á gengi krónunnar.

Verðbólguvæntingar eru á flesta mælikvarða í ágætu samræmi við verðbólgumarkmiðið og virðast þær hafa traustari kjölfestu í markmiðinu en lengi áður. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×