Viðskipti innlent

Bolungarvík efst í strandveiðinni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Bolungarvíkurhöfn.
Frá Bolungarvíkurhöfn. Vísir/Pjetur.
Bolungarvík hefur forystuna í lönduðum afla eftir fyrstu viku strandveiðanna,  með 46 tonn á þeim þremur veiðidögum sem leyfðir voru í vikunni. Patreksfjörður er í öðru sæti, með 38 tonn, og Skagaströnd í því þriðja, með 36 tonn, samkvæmt aflatölum Fiskistofu.

Strandveiðikerfið felur í sér einskonar kappveiðar. Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði og fær hvert þeirra heildarveiðikvóta fyrir hvern mánuð næstu fjóra mánuði. Í upphafi hvers mánaðar hefst því kapphlaup milli báta innan hvers veiðisvæðis um að ná sem mestu af pottinum áður en hann klárast, sem venjulega gerist á tveimur vikum. Hver bátur má þó að hámarki veiða 650 kíló á dag, í þorskígildum talið, sem jafngildir 774 kílóum af þorski upp úr sjó.

Alls hafa um 400 bátar leyfi til strandveiða en samkvæmt frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda eru 319 þeirra byrjaðir veiðar. Fram kemur að aflann hafi þeir sótt í 651 sjóferð og meðaltalið sé 665 kíló í hverri ferð.

Samkvæmt yfirliti Fiskistofu nam heildarafli strandveiðibátanna eftir fyrstu vikuna samtals 418 tonnum og hefur honum verið landað á 40 stöðum. Tíu hæstu löndunarhafnir eftir fyrstu vikuna eru þessar, í tonnum talið: 



Bolungarvík

46,0

Patreksfjörður

38,2

Skagaströnd

36,1

Siglufjörður

32,0

Hornafjörður

29,2

Dalvík

22,0

Hólmavík

18,4

Súðavík

17,7

Djúpivogur

17,5

Suðureyri

16,5



Rétt er að hafa í huga að bræla hamlaði veiðum sunnan- og vestanlands fyrstu tvo veiðidagana og var gærdagurinn því fyrsti stóri strandveiðidagurinn. Frétt Stöðvar 2 um strandveiðarnar í beinni útsendingu frá Arnarstapa í gærkvöldi má sjá hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×