Körfubolti

94 prósent sigurhlutfall hjá Gunnhildi í undanúrslitaeinvígum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir (númer 10) fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra með liðsfélögum sínum í Snæfelli.
Gunnhildur Gunnarsdóttir (númer 10) fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra með liðsfélögum sínum í Snæfelli. Vísir/Ernir

Snæfellskonur eru komnar í úrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna fjórða árið í röð en liðið sópaði Stjörnuliðinu út úr undanúrslitunum á miðvikudagskvöldið.

Fyrirliði Snæfellsliðsins, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 10,9 stig og 4,3 fráköst að meðaltali í einvíginu. Sópið þýddi að Gunnhildur bætti enn við magnað sigurhlutfall sitt í undanúrslitaeinvígum.

Snæfell vann þarna alla þrjá leiki sína í undanúrslitunum annað árið í röð og hefur unnið 9 af 10 leikjum sínum í undanúrslitaeinvígum síðan að Gunnhildur kom aftur heim í Hólminn. Gunnhildur var í fjögur ár hjá Haukum og fór þá tvisvar í undanúrslitin. Haukaliðið vann 3-0 á þá ríkjandi Íslandsmeisturum Keflavíkur í bæði skiptin.  

Gunnhildur hefur nú farið fimm sinnum í undanúrslitaeinvígi og ekki aðeins komist í lokaúrslitin í öll fimm skiptin heldur fagnað sigri í 15 af 16 leikjum sínum í undanúrslitunum. Gunnhildur er þannig með 93,8 prósent sigurhlutfall í undanúrslitaeinvígum.

Gunnhildur nálgast nú met KR-ingsins Kristínu Bjarkar Jónsdóttur sem tók þátt í 9 af fyrstu 10 úrslitakeppnunum. KR-liðið vann 17 af 18 leikjum sem Kristín Björk spilaði í undanúrslitunum eða 94,4 prósent leikjanna.

Í þriðja sætinu á eftir þeim Kristínu og Gunnhildi er Guðbjörg Norðfjörð sem fagnaði sigri í 19 af 22 leikjum sem hún spilaði í undanúrslitaeinvígum á sínum ferli.

Undanúrslitaeinvígi Gunnhildar

Með Haukum
2012: 3-0 sigur á Keflavík
2014: 3-0 sigur á Keflavík

Með Snæfelli
2015: 3-1 sigur á Grindavik
2016: 3-0 sigur á Val
2017: 3-0 sigur á Stjörnunni

Samtals
15 sigrar og 1 tap
93,8 prósent sigurhlutfall


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.