Körfubolti

94 prósent sigurhlutfall hjá Gunnhildi í undanúrslitaeinvígum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir (númer 10) fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra með liðsfélögum sínum í Snæfelli.
Gunnhildur Gunnarsdóttir (númer 10) fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra með liðsfélögum sínum í Snæfelli. Vísir/Ernir
Snæfellskonur eru komnar í úrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna fjórða árið í röð en liðið sópaði Stjörnuliðinu út úr undanúrslitunum á miðvikudagskvöldið.

Fyrirliði Snæfellsliðsins, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 10,9 stig og 4,3 fráköst að meðaltali í einvíginu. Sópið þýddi að Gunnhildur bætti enn við magnað sigurhlutfall sitt í undanúrslitaeinvígum.

Snæfell vann þarna alla þrjá leiki sína í undanúrslitunum annað árið í röð og hefur unnið 9 af 10 leikjum sínum í undanúrslitaeinvígum síðan að Gunnhildur kom aftur heim í Hólminn. Gunnhildur var í fjögur ár hjá Haukum og fór þá tvisvar í undanúrslitin. Haukaliðið vann 3-0 á þá ríkjandi Íslandsmeisturum Keflavíkur í bæði skiptin.  

Gunnhildur hefur nú farið fimm sinnum í undanúrslitaeinvígi og ekki aðeins komist í lokaúrslitin í öll fimm skiptin heldur fagnað sigri í 15 af 16 leikjum sínum í undanúrslitunum. Gunnhildur er þannig með 93,8 prósent sigurhlutfall í undanúrslitaeinvígum.

Gunnhildur nálgast nú met KR-ingsins Kristínu Bjarkar Jónsdóttur sem tók þátt í 9 af fyrstu 10 úrslitakeppnunum. KR-liðið vann 17 af 18 leikjum sem Kristín Björk spilaði í undanúrslitunum eða 94,4 prósent leikjanna.

Í þriðja sætinu á eftir þeim Kristínu og Gunnhildi er Guðbjörg Norðfjörð sem fagnaði sigri í 19 af 22 leikjum sem hún spilaði í undanúrslitaeinvígum á sínum ferli.

Undanúrslitaeinvígi Gunnhildar

Með Haukum

2012: 3-0 sigur á Keflavík

2014: 3-0 sigur á Keflavík

Með Snæfelli

2015: 3-1 sigur á Grindavik

2016: 3-0 sigur á Val

2017: 3-0 sigur á Stjörnunni

Samtals

15 sigrar og 1 tap

93,8 prósent sigurhlutfall


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×