Körfubolti

Valskonur keyrðu yfir Grindvíkinga í seinni hálfleiknum | Grindavík fallið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir lék vel fyrir Valsliðið í kvöld.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir lék vel fyrir Valsliðið í kvöld. Vísir/Stefán

Valur vann öruggan fimmtán stiga sigur á Grindavík, 83-68, í fyrsta leik kvöldsins í 26. umferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta.

Valsliðið er fjórum stigum á eftir Stjörnuliðinu í baráttunni um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni. Grindavík er áfram í neðsta sæti deildarinnar og með þessum úrslitum er ljóst að liðið er fallið í 1. deild.

Grindavík getur nú bara náð Haukum að stigum en verður alltaf neðar í töflunni á lélegri árangri í innbyrðisleikjum liðanna.  Haukar unnu Grindavík þrisvar sinnum í vetur.

Grindvíkurkonur unnu sinn fyrsta leik á árinu í síðasta leik og byrjuðu mjög vel á Hlíðarenda í kvöld.

Grindavík var þannig átta stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 26-18, og með sjö stiga forystu í hálfleik, 46-39.

Valskonur vöknuðu eftir hálfleiksræðu Ara Gunnarssonar þjálfara síns og töku öll völd í seinni hálfleiknum.

Valsliðið vann þriðja leikhlutann 23-14 og svo lokaleikhlutann 21-8 þar sem ekki stóð steinn yfir steini í leik gestanna úr Grindavík.

Mia Loyd átti enn einn stórleikinn með Val en hún endaði með 34 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir skoraði 14 stig og Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með 12 stig og 4 stoðsendingar.

Angela Marie Rodriguez skoraði 18 stig fyrir Grindavík og Íris Sverrisdóttir var með 17 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.