Viðskipti innlent

Sala Kaupþings á allt að 50 prósenta hlut í Arion banka á lokametrunum

Hörður Ægisson skrifar
Miðað við fyrirliggjandi kaupsamkomulag er gert ráð fyrir því að bandarísku fjárfestingasjóðirnir og lífeyrissjóðirnir kaupi hlut í Arion banka á genginu rúmlega 0,8 miðað við bókfært eigið fé bankans.
Miðað við fyrirliggjandi kaupsamkomulag er gert ráð fyrir því að bandarísku fjárfestingasjóðirnir og lífeyrissjóðirnir kaupi hlut í Arion banka á genginu rúmlega 0,8 miðað við bókfært eigið fé bankans. Fréttablaðið/GVA
Kaupþing vinnur nú að því að ganga frá sölu á allt að 50 prósenta hlut félagsins í Arion banka í lokuðu útboði til bandarískra fjárfestingasjóða og hóps íslenskra lífeyrissjóða. Kaupverðið mun nema á bilinu 70 til 90 milljörðum íslenskra króna, eða sem jafngildir genginu rúmlega 0,8 miðað við bókfært eigið fé Arion banka. Væntingar eru um að viðskiptin verði kláruð á allra næsta vikum, samkvæmt heimildum Markaðarins. Söluandvirðið mun fara í að gera upp 84 milljarða veðskuldabréf sem Kaupþing gaf út til íslenska ríkisins í ársbyrjun 2016.

Kaupþing vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. 

Kaupsamningar við bandarísku sjóðina eru mjög langt komnir en áformað er að fjórir fjárfestingasjóðir kaupi allt að 25 prósenta hlut í bankanum. Að minnsta kosti tveir þessara sjóða – Taconic Capital og Och-Ziff Capital – eru jafnframt á meðal kröfuhafa Kaupþings. Enginn einn þeirra verður með meira en 10 prósent í Arion banka, sem myndi þýða að samþykki Fjármálaeftirlitsins (FME) þyrfti til að fara með virkan eignarhlut, en Taconic Capital hyggst vera með stærsta einstaka hlutinn á meðal sjóðanna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Sá vogunarsjóður er langsamlega umsvifamestur í kröfuhafahópi Kaupþings en í árslok 2016 áttu sjóðir Taconic Capital samtals um 40 prósent allra krafna á hendur félaginu.

Í dag eru kröfuhafar Kaupþings aðeins óbeint eigendur að Arion banka í gegnum 87 prósenta eignarhlut sem Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, heldur utan um og hafa því enga formlega aðkomu að stjórn né rekstri bankans. Það mun því taka breytingum á næstunni þegar sjóðir á borð við Taconic Capital verða á meðal hluthafa Arion banka en fyrir utan Kaupþing á íslenska ríkið 13 prósenta hlut í bankanum. Bandarísku sjóðirnir bíða nú meðal annars eftir samþykki Seðlabanka Íslands um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál, vegna útgáfu afleiðusamninga í því skyni að verja sig gegn gengisþróun krónunnar, í tengslum við fjárfestingu þeirra í Arion banka.

Óvíst um fjölda sjóða

Samningar við íslensku lífeyrissjóðina eru ekki jafn langt á veg komnir en af hálfu Kaupþings er engu að síður búist við að niðurstaða fáist á næstunni um hversu mikil aðkoma þeirra verður að kaupum á hlut í Arion banka. Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um endanlegan fjölda þeirra sjóða sem áforma að fjárfesta í bankanum, þar sem slíkar tillögur hafa enn ekki verið lagðar fyrir stjórnir lífeyrissjóðanna, en gert hefur verið ráð fyrir að þeir muni kaupa samanlagt sambærilegan hlut og bandarísku fjárfestingasjóðirnir.

Á meðal fjögurra stærstu lífeyrissjóðanna – Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gildis og Birtu – þykir ólíklegt að LSR muni á þessu stigi í söluferlinu fjárfesta í bankanum. Hinir stóru sjóðirnir, einkum Gildi og Birta, horfa hins vegar til þess að kaupa hlut í lokuðu útboði (e. private placement) auk ýmissa smærri lífeyrissjóða. Hversu stóran hlut sjóðirnir munu samanlagt kaupa, samkvæmt heimildum Markaðarins, breytir engu varðandi samkomulag bandarísku fjárfestingasjóðanna við Kaupþing um að eignast 20 til 25 prósenta hlut í Arion banka.

Hlutafjárútboð frestast

Sú staðreynd að Kaupþing er um þessar mundir að ganga frá sölu á tugprósenta eignarhlut í Arion banka í lokuðu útboði, sem ekki var útlit fyrir í lok síðasta árs, þýðir jafnframt að fyrirhugað almennt hlutafjárútboð bankans fer fram seinna en áður var áætlað. Í upphafi árs var stefnt að því að slíkt hlutafjárútboð, þar sem Kaupþing myndi bjóða til sölu eignarhlut sinn, myndi fara fram um miðjan apríl næstkomandi. Í kjölfar útboðsins yrði bankinn síðan skráður á markað í Kauphöll Íslands og í Kauphöllinni í Svíþjóð.

Ekkert hefur breyst varðandi þau áform Kaupþings um að skrá bankann á hlutabréfamarkað en samkvæmt þeirri tímalínu sem félagið vinnur núna eftir verður útboðið aftur á móti haldið í fyrsta lagi í maí eða júní á þessu ári. Þá er ljóst að sá hlutur sem býðst til sölu í hlutafjárútboðinu verður talsvert minni – mögulega á bilinu 30 til 40 prósent – en ella vegna fyrirhugaðra kaupa bandarísku sjóðanna og lífeyrissjóðanna. Þeir bankar sem hafa verið ráðnir umsjónaraðilar með útboðinu eru Morgan Stanley, Citi og sænski fjárfestingabankinn Carnegie. Þá mun Deutsche Bank vera í hlutverki söluráðgjafa auk þess sem búist er við að gerður verði ráðgjafasamningur við íslensk fjármálafyrirtæki.

Löng fæðing

Viðræður um möguleg kaup lífeyrissjóða á hlut Kaupþings í Arion banka hafa staðið yfir – með mislöngum hléum – í um fimmtán mánuði. Þannig hóf hópur lífeyrissjóða fyrst slíkar óformlegar viðræður við slita­stjórn Kaupþings í árslok 2015. Þær þreifingar náðu aldrei lengra en að vera aðeins kurteisisviðræður enda var það afstaða stærstu kröfuhafa Kaupþings á þeim tíma að slita­stjórnin hefði í reynd ekkert umboð til að eiga í viðræðum við hugsanlega kaupendur að bankanum – það væri verkefni sem hlyti að vera á forræði stjórnar hins nýja eignarhaldsfélags sem tók skömmu síðar til starfa. Eftir að sú stjórn var kjörin til að stýra Kaupþingi um miðjan mars 2016 voru viðræðurnar settar á ís.

Lífeyrissjóðum var í september í fyrra boðið að ganga til viðræðna við Kaupþing um að kaupa á bilinu 20 til 40 prósenta hlut í Arion banka áður en almennt hlutafjárútboð og skráning á bankanum færi fram. Þá gerði upplegg Kaupþings á þeim tíma jafnframt ráð fyrir því að kröfuhafar félagsins, sem eru einkum ýmsir alþjóðlegir fjárfestingasjóðir, myndu í lokuðu útboði kaupa samtímis 10 til 20 prósenta hlut í Arion banka á sama sölugengi og lífeyrissjóðirnir. Það slitnaði að mestu upp úr viðræðum ráðgjafa sjóðanna og Kaupþings í desember þar sem of mikið bar í milli varðandi hugmyndir um mögulegt kaupverð á hlut í bankanum. Viðræðurnar hófust hins vegar að nýju í byrjun þessa árs og hafa staðið yfir á undanförnum vikum.

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í lok janúar var upplýst að ýmsir erlendir fjárfestingasjóðir hefðu á undanförnum vikum og mánuðum átt fundi hér á landi með yfirstjórnendum Fjármálaeftirlitsins (FME) í tengslum við möguleg kaup þeirra á hlut í Arion banka. FME hefur leitað eftir því á fundunum að fá upplýsingar um eignarhald viðkomandi sjóða og önnur atriði sem kunna að varða hugsanlegt hæfi þeirra til að fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Ekki hafa fengist upplýsingar um nöfn þeirra sjóða sem hafa fundað með FME en ljóst er að þar er um að ræða bandaríska fjárfestingasjóði í kröfuhafahópi Kaupþings sem standa núna að baki kaupum á Arion banka.

Miklir hagsmunir ríkisins

Auk þess að eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta við sölu Kaupþings á hlut sínum í Arion banka, vegna afkomuskiptasamnings sem var gerður við kröfuhafa í árslok 2015, þá á ríkið 13 prósent í bankanum sem Bankasýslan heldur utan um. Sá hlutur gæti verið metinn á um á 27 milljarða ef tekið er mið af bókfærðu eigin fé Arion banka. Í nýlega birtum drögum að uppfærðri eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki kemur fram að sala á hlutnum muni að öllum líkindum eiga sér stað í tengslum við sölu Kaupþings og skráningu Arion banka á markað síðar á þessu ári.

Þrátt fyrir að hafa skilað metafkomu á árinu 2015, þegar Arion banki hagnaðist um 50 milljarða, þá hefur arðsemi af undirliggjandi rekstri bankans farið minnkandi að undanförnu sem skýrist meðal annars af háu eiginfjárhlutfalli. Arion banki hagnaðist um 22 milljarða eftir skatta 2016 en arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi bankans var aðeins 4,7 prósent borið saman við 8,7 prósent á árinu 2015.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.