Handbolti

Fékk skilaboð frá Ólafi Stefánssyni í viðnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í búningi Rhein-Neckar Löwen.
Ólafur Stefánsson í búningi Rhein-Neckar Löwen. Vísir/Getty
Sænski handboltamaðurinn Kim Ekdahl du Rietz var í viðtali í Fréttablaðinu í dag þar sem hann fór betur yfir þá ákvörðun sína að setja handboltaskóna upp á hillu.

Kim Ekdahl du Rietz gat ekki annað en hlegið þegar undirritaður nefni að spjall okkar minni mig á Ólaf Stefánsson, sem lék einnig með Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi á sínum tíma. Þeir náðu þó aldrei að vera liðsfélagar.

„Margir hjá félaginu hafa líka sagt þetta við mig, að ég minni þá á Ólaf,“ segir Kim sem hefur ákveðið að hætta að spila handbolta í sumar, 27 ára. Ólafur spilaði fram yfir fertugt og náði að verða meðal bestu handboltamanna sögunnar. Þó svo að það séu líkindi með þeim eru þeir þó afar ólíkir að því leyti.

„Ólafur hafði meiri metnað en ég. Ég man að ég fékk sama bás í búningsklefanum okkar og hann. Þar hafði hann rist í viðinn: „Strive for perfection or do some­thing else“,“ rifjar Kim upp. Leggðu þig allan fram til að ná fullkomnun eða snúðu þér að einhverju öðru. Kim nefnir að hann reyni að leggja sig allan fram þegar hann er inni á vellinum og að hann vilji ganga ánægður frá loknu verki.

„En þetta síðasta skref sem þeir allra bestu hafa – þessi mikla innri hvatning verður líka að koma frá því að þú njótir þess sem þú ert að gera. Ef þú gerir það ekki þá kemur hvatningin aldrei.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×