Fölsunin kom í ljós eftir að kaupandi slíkrar bifreiðar leitaði til viðkomandi bifreiðaumboðs til að fá staðfesta ábyrgð á bílnum. Þar skýrðist að bifreiðin uppfyllti ekki Euro VI staðla sem er skylda fyrir alla bíla sem skráðir eru nýir innan Evrópska efnahagssvæðisins og á því einnig við hér á landi. Bílar sem uppfylla Euro VI staðlana menga minna en bílar af eldri gerðum.
Þar sem bifreiðin var ekki framleidd til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu eru ýmis önnur frávik. Til dæmis notar bifreiðin kælivökva sem uppfyllir ekki reglugerðir, hún er aðeins búin einum öryggisloftpúða í stað sex, sem er staðalbúnaður bifreiðarinnar hér á landi.
Þá staðfestir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, að bíllinn sé ekki í ábyrgð hjá viðkomandi umboði, enda sé hann smíðaður fyrir annað markaðssvæði en Evrópu.

„Þannig að það átti í raun ekki að vera til. Í framhaldi var það svo staðfest af framleiðanda viðkomandi bifreiðar að um fölsuð vottorð var að ræða.“
Özur segir að herða ætti eftirlit með grunsamlegum skírteinum.
„Samgöngustofa á að leita til framleiðanda með staðfestingu á að viðkomandi bifreiðar uppfylli með réttu þau skilyrði og lög sem hér eru í gildi. Bifreiðar, framleiddar fyrir Rússlandsmarkað eins og í þessu tilviki, eru með miklu minni öryggisbúnað og án mengunarbúnaðar sem gerð er krafa um í Evrópu, og eru að sjálfsögðu ódýrari en um leið uppfylla þær ekki lögin sem við fylgjum,“ segir Özur.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Samgöngustofa svarað fyrirspurn Bílgreinasambandsins. Nýjum beiðnum um forskráningu þessarar gerðar bifreiða verður hafnað. Ef minnsti grunur leikur á því að gögn séu fölsuð þá mun Samgöngustofa í framtíðinni leita til þeirra sem eru umboðsaðilar viðkomandi ökutækja hér á landi.
Samgöngustofa er að vinna að máli varðandi þær sjö bifreiðar sem þegar hafa verið skráðar og mun hafa samband við eigendur bifreiðanna sem eiga í hlut. Ekki er á þessu stigi ljóst hverjar afleiðingarnar verða enda hefur sambærilegt mál ekki komið upp hjá Samgöngustofu. Upplýsingum um þetta mál verður komið áfram á skráningaryfirvöld í Evrópu.