Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu þrotabús Kaupþings um að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri bankans, Magnús Guðmundsson, forstjóri bankans í Lúxemborg, og Skúli Þorvaldsson, fjárfestir, séu skaðabótaskyldir í Marple-málinu svonefnda. Þrotabúið hafði krafið þá um milljarða króna skaðabætur.
Málið snerist um færslu á fjármunum Kaupþings til félagsins Marple Holding sem Skúli átti í Lúxemborg og kaup bankans á eigin skuldabréfum af Marple.
Fangelsisdómur Hreiðars Más var þyngdur í tólf mánuði í dag og Skúli hlaut sex mánaða dóm. Þetta var í annað skiptið sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu en Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað vegna vanhæfis meðdómara.
Hreiðar Már var dæmdur fyrir fjárdrátt og umboðssvik sem héraðsdómur taldi hafa leitt til stórfellds fjártjóns almenningshlutafélagsins Kaupþings. Brot Skúla var talið felast í að taka við og geyma ólögmætan hagnað á reikningi félagsins Marple Holding.
Magnús hlaut átján mánaða dóm fyrir sinn hlut í brotunum.
Sjá einnig: Marple-málið: Dómur yfir Hreiðari Má þyngdur
Þrotabú Kaupþings krafðist þess að sakborningarnir fjórir í málinu, þeir Hreiðar Már, Skúli og Magnús auk Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, yrðu dæmd til að greiða skaðabætur. Guðný var sýknuð í málinu.
Krafðist fallni bankinn þess að fjórmenningarnir greiddu rúma sex milljarða króna, 15,6 milljónir evra og 3,5 milljónir dollara auk vaxta og dráttarvaxta í skaðabætur.
Héraðsdómur féllst hins vegar aðeins á þrautavarakröfur Kaupþings hf. um að viðurkenna skaðabótaskyldu Hreiðars Más, Magnúsar og Skúla gagnvart bankanum.
Þá féllst héraðsdómur á upptöku á rúmlega 6,7 milljörðum króna sem voru á reikingi Marple sem hald var lagt á við rannsókn málsins. Hann hafnaði hins vegar kröfu um að gera eignir Skúla í Lúxemborg upptækar.
Þremenningar dæmdir skaðabótaskyldir í Marple-málinu

Tengdar fréttir

Lektor við Háskóla Íslands vanhæfur til að dæma í Marple-málinu
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í október 2015 í Marple-málinu svokallaða var í dag ómerktur í Hæstarétti vegna vanhæfis sérhæfðs meðdómara í málinu, Ásgeirs Brynjars Torfasonar en hann er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Marple-málið: „Þungt að horfa upp á það að umbjóðandi minn hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar“
Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar sem er einn af sakborningum í Marple-málinu, fagnar niðurstöðu Hæstaréttar frá því í dag en rétturinn ómerkti þá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur vegna vanhæfis sérfróðs meðdómanda í málinu, Ásgeirs Brynjar Torfasonar, en hann er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.