Markkanen fór á kostum með finnska landsliðinu á EM í Helsinki í haust og skoraði meðal annars 23 stig á 24 mínútum í sigri á Íslandi.
Lauri Markkanen er með 14,7 stig að meðaltali í fyrstu 25 leikjunum með Chicago Bulls en hann er að skora 2,2 þriggja stiga körfur að meðaltali í leik.
Það vita kannski færri að Lauri var afbragsðfótboltamaður og eldri bróðir hans, Eero Markkanen, er landsliðframherji hjá Finnum.
Lauri er 213 sentímetrar á hæð og kannski aðeins of hávaxinn fyrir fótboltann en hann hefur samt góða tilfinningu fyrir boltanum í fótunum.
Þetta sýndi hann á skotæfingu Chicago Bulls á dögunum þar sem þessi tvítugi strákur bauð upp á skemmtilega knattleikni.
Liðsfélagar hans trúðu varla sínum eigin augum en best var þó þegar Lauri Markkanen bauð upp á svokallað fótbolta-körfuboltaskot en það eru ekki margir NBA-leikmenn sem gætu leikið það eftir.
Chicago Bulls setti myndband af þessu inn á fésbókarsíðu sína sem má sjá hér fyrir neðan.