Körfubolti

Bandarískur körfuboltamaður sem ætlaði að spila með Keflavík lést á æfingu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cameron Moore í leik með New York Knicks í sumardeild NBA.
Cameron Moore í leik með New York Knicks í sumardeild NBA. vísir/afp
Cameron Moore, 25 ára gamall bandarískur körfuboltamaður, lést síðastliðinn þriðjudag á fyrstu æfingu sinni með makedónska liðinu AV Ohrid. Hann var nálægt því að spila með Keflavík í Dominos-deildinni í vetur.

Moore kom seint á mánudaginn í síðustu viku til Makedóníu frá Feneyjum á Ítalíu og fór á sína fyrstu æfingu daginn eftir, en hann átti bara eftir að skrifa undir samning við liðið þegar hann féll skyndilega frá á fyrstu æfingunni.

Bandaríkjamaðurinn var greindur með of stórt hjarta þegar hann spilaði nokkra leiki í NBA D-League á síðasta ári. Ivo Markoski, talsmaður makedónska liðsins, greindi frá þessu í viðtali við AP.

„Þetta er harmleikur. Við fengum ekki einu sinni tíma til að kynnast honum almennilega. Hann var í Ohrid í 24 tíma. Við leyfðum honum að hvílast eftir ferðalagið en harmleikurinn átti sér stað á fyrstu æfingunni hans,“ sagði Markoski.

Moore var búinn að gera munnlegt samkomulag við makedónska liðið og var að byrja í læknisskoðun þegar hann féll frá. Það átti eftir að skrifa undir alla formlega pappíra en það átti að gerast eftir læknisskoðunina.

Moore, sem spilaði menntaskólabolta í San Antonio og var kraftframherji hjá Alabama-Birmingham háskólanum í Bandaríkjunum, var í viðræðum við Keflavík í Dominos-deildinni áður en hann fékk tilboðið frá makedónska liðinu og stökk frekar á það. Þetta hefur Vísir fengið staðfest.

Keflavík fékk í staðinn Amin Stevens sem skoraði 33 stig og tók 21 frákast í 88-82 sigri á Njarðvík í Ljónagryfjunni í fyrstu umferð Dominos-deildar karla.

Cameron Moore spilaði á Ítalíu og þróunardeild NBA áður en hann fékk samninginn í Makedóníu. Vinir hans sem hafa tjáð sig um dauðsfallið segja hann  hafa verið frábæran strák sem féll frá alltof snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×