Innlent

Uppgjör Gauja litla við offituna og sviðsljósið

Jakob Bjarnar skrifar
Gaui litli hress í dag. Tuttugu ár eru síðan hann kom fram á hvítum nærbuxum einum saman og lagði þjóðina að fótum sér. Það hefur gengið á ýmsu í baráttunni við offituna á þessum tveimur áratugum.
Gaui litli hress í dag. Tuttugu ár eru síðan hann kom fram á hvítum nærbuxum einum saman og lagði þjóðina að fótum sér. Það hefur gengið á ýmsu í baráttunni við offituna á þessum tveimur áratugum. visir/gva
Fyrir tuttugu árum saup þjóðin hveljur þegar Gaui litli, Guðjón Sigmundsson, birtist þjóðinni í fjölmiðlum á hvítum nærbuxum einum klæða, alltof þungur eða heil 170 kíló. Hvað var að gerast?

Enn er offita að einhverju leyti feimnismál, um það er deilt hvernig beri að taka á henni og hvernig tilhlýðilegt sé að tala um hana. Þar spilar meðvirkni stóran þátt, að mati Gauja litla. En, fyrir 20 árum voru orð eins og líkamsvirðing ekki til. Feitir voru hafðir að háði og spotti. Þeir voru fórnarlömb stimplunar og sterótýpugervingar; þeir áttu að vera feitir og fyndnir en máttu að öðru leyti þola háð og spott.

Með opinni framgöngu og jákvæðni lagði Gaui litli þjóðina að fótum sér. Umsvifalaust. Líklega býr hans helsta afrek einhvers staðar þar í. Umsvifalaust varð hann þjóðþekktur, var reglulega í fjölmiðlum en hann var vikulega í magasínþætti Ríkissjónvarpsins, Dagsljósi, og var vigtaður þar og talaði af miklu hispursleysi um offituvanda sinn. Og honum líkaði sviðsljósið vel.

Gaui litli snéri viðhorfi heillar þjóðar gangvart þessum vanda á haus á skammri stundu. Gaui segist aldrei hafa orðið fyrir aðkasti, svo hann muni og honum finnst reyndar spurningin framandi. En, þetta tók sinn toll. Gaui litli hefur þurft að eiga við margvíslegan vanda svo sem þann að hafa lent í búlemíu – nokkuð sem hann talaði aldrei um.

Við erum í miklu bulli

En, þrátt fyrir að Gaui litli, merkilega laus við spéhræðsluna hafi lyft Grettistaki með sinni eðlilegu framgöngu er það svo að offita er orðin að faraldri; þetta er langstærsti heilbrigðisvandi sem Vesturlönd eiga við að stríða. Nú deyja fleiri af völdum offitu en hungurs í heiminum öllum. Bara á Íslandi veltir offitubransinn mörgum milljörðum. En, Gaui litli segir flestar aðferðirnar vera gagnslausar skyndilausnir. Hann gagnrýnir harðlega það hvernig offita er orðin að ríkum þætti í skemmtanamenningu, til að mynda í þáttum eins og Biggest Looser; hann segir að við séum að nálgast þennan risavaxna vanda á rangan og jafnvel skaðlegan hátt. Hann segir offitu stafa af fíkn. „Við erum í djöfulsins bulli.

Fyrir tuttugu árum. Hinn 170 kílóa Gaui litli á forsíðu dagblaðsins Dagur-Tíminn. Menn ráku upp stór augu.
En, hvernig byrjaði þetta allt saman? Gaui litli var míníselebb í Reykjavík. Hann starfaði við leikmyndagerð og klæddi sig frumlega í sérsaumuðum flíkum. Og vakti athygli þar sem hann fór og var áberandi í skemmtanalífi borgarbúa. Hann hefur enn gaman að því að klæða sig frumlega og er fyrir keðjur og hringa en hann segir að þá hafi þetta fyrst og síðast verið gert til að fela aukakílóin. Innra með sér þjáðist hann vegna þeirra. Og var í afneitun, segir hann blaðamanni eftir að hafa fallist á að koma í viðtal og gera þennan tíma upp. Í tilefni þessara tímamóta.

Að maður skyldi láta hafa sig út í þetta

Blaðamaður Vísis hitti Gauja litla sem sýndi honum úrklippubækur sínar. Gaui hefur haldið utan um fréttir sem af honum hafa birst í gegnum tíðina. Um er að ræða 12 stórar og troðnar útklippubækur. „Að maður skyldi láta hafa sig út í þetta,“ dæsir stóri maðurinn þegar við flettum í gegnum þessar bækur. Hann segist ekki hafa vigtað sig langan tíma núna, honum líður vel og segir þyngdina vera að ganga niður.

Gaui er þeim góðu gáfum gæddur að segja skemmtilega frá og best að gefa honum bara orðið, hvernig kom þetta eiginlega til? Að hann varð helsta stjarna magasínþáttar Ríkissjónvarpsins sem hét Dagsljós? Og nú verða menn að hafa hugfast að fjölmiðlaumhverfið var gerólíkt því sem nú er; ef eitthvað var tekið til umfjöllunar þar og þá fór það ekki fram hjá nokkrum manni sem á annað borð fylgdist með á Íslandi.

„Ég var 39 ára gamall, ég hélt uppá fertugsafmælið um vorið. Sat á Kaffibarnum í sérsaumuðum fötum vegna offitu. Drakk cappuccino og var með koníaksglas þar við hlið og var að reykja vindla. Með súkkulaðikökusneið, franska með rjóma, á borðinu,“ segir Gaui og kjamsar beinlínis þegar hann sér fyrir sér súkkulaðikökusneiðina frönsku.

Var ég þessi offeiti sukkari sem um var rætt?

„Þá kom Marteinn St. Þórsson vinur minn, kvikmyndagerðarmaður með meiru, en hann var þá pródúsent í Dagsljósi á RÚV, á Kaffibarinn. Hann settist hjá mér og var hálffúll. Hann sagði mér af hugmyndafundi sem hann var að koma af í Sjónvarpshúsinu. Þar var verið að skipuleggja dagskrá Dagsljóss þann veturinn. Þetta hefur trúlega verið í júlí, snemma. 1996. Fyrir tuttugu árum réttum. Á þeim fundi kom fram hugmynd um að vera með heilsuhorn einu sinni í viku, í fimm mínútur í senn. Hugmyndin að taka fyrir heilbrigði og hreysti, og var stungið uppá hinum ýmsu frammámönnum í heilsu- og íþróttageiranum. Sem Marteinn var ósáttur við, honum þótti þetta ófrumleg nálgun.“

Og Gaui var honum innilega sammála.

Gaui litli var mini-seleb, eins og það kallast. Og þarna kemur hann fram í Helgarpóstinum, sem töff týpa í sérsaumuðum fötum; fastagestur á Kaffibarnum þar sem þeir hittust á örlagaríkum fundi, hann og Marteinn St. Þórsson.
„Við fórum að leika okkur með hugmyndir. Hvernig slíkt heilsuhorn gæti verið? Það sem við sáum fyrir okkur var að til þyrfti að koma einstaklingur sem var einmitt andstæða þess að vera heilbrigður og hraustur; sá einstaklingur væri eins og Don Kíkóti, væri að leita að hinum eilífa kaleik um heilbrigði og hreysti. Hann þyrfti að reykja og drekka og sukka í mat og vera feitur og þungur og ekki geta hreyft sig. Okkur þótti þetta geysilega skemmtileg og góð hugmynd. Eftir að hafa rætt þetta lengi vel þá stoppaði Marteinn, benti þá á mig og spurði hvort ég sé ekki þessi einstaklingur? Sem við höfðum verið að skemmta okkur í dágóða stund við að teikna upp yfir kaffi og koníjaki. Ég?!“

Brást ókvæða við en lét sig svo

Gaui litli lifir sig inn í frásögnina og endurminninguna og gerir stutta kúnstpásu áður en hann heldur áfram: „Ég brást hinn versti við, stóð upp, rauk út og skellti á eftir mér. Og hafði á orði að ég myndi aldrei ræða við þennan fúla pródúsent framar. Nema, þremur dögum síðar hafði hann samband við mig, hafði þá rætt þetta við Svanhildi Konráðsdóttur sem þá var yfirmaður Dagsljósþáttarins. Henni fannst þetta hin besta hugmynd. Ég var boðaður á fund hjá Svanhildi, við ræddum þetta öll þrjú fram og til baka og ég fékk umhugsunarfrest, ræddi þetta við fjölskylduna og það þurfti svo sem ekki langan tíma að taka þá ákvörðun að láta slag standa og vaða í þetta óhindrað.“

Gaui litli í dag, í góðu jafnvægi og lítur vel út. Hann segir að hann flokkist sem feitur en ekki þó þannig að flokkist sem offitusjúklingur.visir/gva
The rest is history, eins og Kaninn segir. Þeir Gaui og Marteinn gerðu sérstakt innslagsstef, sem spilað var á undan dagskrárlið Gauja litla. „Ég var þá búinn að sauma á mig þennan forláta zebragalla; stóra og mikla mussu úr efni sem var zebramynstrað, og litla húfu við í sama stíl. Svo vildi hann að ég dansaði fyrir framan vélina. Eins og mér var einum lagið svo þungur sem ég var. Tæp 170 kíló þá.“

Fitubollur á færibandi inn í ofn

Þættirnir slógu rækilega í gegn. Öll þjóðin fylgdist með Gauja litla takast á við aukakílóin. Þó þetta væri fyrir tíð orða á borð við fitufordóma og líkamsvirðingu var það þó svo að ýmsir aðilar voru farnir að gera sér mat úr þessum vanda sem þá þegar var vaxandi.

„Við tókum fyrir eitt og annað sem menn væru að bjóða uppá til að bræða af manni spikið. Á þeim tíma hét þetta allt fitubrennslunámskeið. Markaðssett eins og fitubollurnar væru á færibandi inni í einhverjum ofni og þar myndi bráðna af okkur hægt og rólega. Svo voru seldir allskyns pillur og duft og fylgihlutir. Bumbubaninn og ég veit ekki hvað og hvað. Við ákváðum að ég myndi láta reyna á hinar ýmsu aðferðir, mynda það og vera með umfjöllun. Samhliða því að stunda líkamsrækt með leiðsögn einkaþjálfara. Og vigta síðan fyrir alþjóð á stóru vigtinni sem var úti á Reykjavíkurflugvelli, sem við fengum lánaða en hún vigtaði 250 kíló.“

Vigtaður reglulega frammi fyrir alþjóð

Innslögin voru sýnd, Gaui vigtaður og svo settist hann í sófann, oftast hjá Loga Bergmann sem var einn umsjónarmanna Dagsljóss og þar var farið yfir stöðuna. Skyndilega er Gaui litli orðinn landsþekktur maður. Það hljóta að hafa verið viðbrigði?

„Já, auðvitað. Þessi fjölmiðill var náttúrlega dómínerandi fyrir tuttugu árum. Þegar einstaklingur eins og ég berskjalda mig eins og ég gerði, þá verður maður landsþekktur „over night“. Og það sýndi sig með ýmsum hætti. Þegar ég mætti í matvöruverslanir, til dæmis, voru menn áhugasamir um að kanna hvað ég væri með í matinn, spyrja mig ráða og hvetja mig.“

Gaui segir gríðarlega jákvæðni hafa verið ríkjandi gagnvart öllu þessu. „Í bland við að taka á þessu efni af festu og alvöru, þá reyndum við Marteinn að hafa þetta líka skemmtilegt og sýna spaugilegar hliðar á þessari baráttu. Marteinn á stóran þátt í að hafa gert þessa þætti bæði líflega og myndrænt skemmtilega. Ég sá um að grófklippa efni sjálfur, við tókum mikið af efni sem þurfti svo að klippa niður í fimm til sex mínútur. Svo tók Marteinn við því klippi. Og gerði úr þessu það efni sem það var. Snillingur sá drengur.“

Gaui berst við búlemíu

En, þetta var erfitt einnig. Gaui æfði sex daga vikunnar, einn og hálfan tíma í senn. Mikið kapp. Það tók á. Til að byrja með snérist þetta nánast eingöngu um brennslu. „Markmiðið var náttúrlega að reyna að sýna fram á þyngdartap en ekki aukningu. Og það gekk nú stundum upp og niður. Þannig að, öllu jöfnu léttist ég í hverri viku, stundum stóð ég í stað eða þyngdist lítillega. Og þegar frammí sótti, eða í janúar, var ég kominn með búlemíueinkenni.“

Gaui litli reif af sér kílóin, nánast í beinni útsendingu og hann fór í kjölfarið út í heilsuræktargeirann. En, þarna var farið bratt í málin og í kjölfarið þurfti Gaui að glíma við búlemíu.
Þarna hefðu allar viðvörunarbjöllur átt að hringja. Gaui var farinn að kasta upp fæðunni. Og fór í gegnum gríðarlega erfitt tímabil. Sem hann leyndi.

„Það er rosalegt stjórnleysi. Þú hefur enga stjórn. Þetta er gríðarlegt álag og andleg vanlíðan. Og það er kannski vegna þess að ég hafði stundað andlega íþróttir til áratuga, hugleiðslu og annað slíkt, sem ég náði stjórn á þessu. Ég náði að fókusera og koma mér út úr þessu ástandi. Eftir á að hyggja hefði ég átt að leita mér hjálpar en gerði það ekki. Ég talaði aldrei um þetta, því þetta er í bland við að vera sjúklegt ástand og skömm. Ég veit ekki hvernig aðrir upplifa það en ég þagði yfir því að vera kominn á þennan stað.“

Á bólakaf í líkamsræktarbransann

Ég næ að koma mér út úr þessu en auðvitað er svona lagað enginn leikur og fræðimenn töluðu um að ég væri í rauninni að gera rangt, þetta væri alltof bratt, að ég væri að gera þetta á alltof skömmum tíma. Ég myndi fitna til baka um leið og ég myndi hætta í sjónvarpinu, þetta myndi engan veginn haldast.

Árangurinn lét nefnilega ekki á sér standa og í öllum fjölmiðlum mátti sjá auglýsingar; myndir af Gauja litla fyrir og eftir. Mínus 50 kíló. En Gaui lagði við eyru. Kannski var þetta of bratt?

„Já, ég fór hugsa um fyrirbyggjandi þætti. Prógramm sem myndi henta mér og fór að vinna í að setja saman prógramm fyrir spinning-kennslu þar sem ég vildi blanda saman því að hjóla og síðan öndun og hathajóga; líkamlegar æfingar sem við gerðum á milli þess sem við hjóluðum og stunduðum öndunaræfingar. Æfingar sem eru til þess fallnar að draga í líkamann orku, þannig að hann brenni sem mestu á sem skemmstum tíma. Það var markmiðið, því mér þótti þetta ekki það skemmtilegasta í heimi að stunda líkamsrækt og vildi komast á sem auðveldastan hátt frá því.“

Gaui litli sem sagt datt á bólakaf í þennan líkmasræktarbransa. Það lá beint við. Fjölmiðlarnir veitu Gauja ótakmarkaða athygli og fólk í hrönnum leitaði til hans um ráð og aðstoð. Þetta lá beint við.

Offitusjúklingurinn ekkert að pósa fyrir framan spegil

Gaui skipulagði námskeið í samvinnu við Bjössa í World Class. Tími fyrir of þunga.

„Mér þótti þetta liggja beinast við, af því að ég var búinn að búa til þetta prógramm fyrir mig. Ég málaði spinning-salinn bláan, setti ský og gardínur fyrir spegla. Hinn normal maður vill hafa spegla og horfa á sig þegar hann hjólar en sá feiti er ekki að velta því fyrir sér. Hann er engan veginn í því að pósa í spinningtímum. En við drógum fyrir spegla og dempuðum birtu og höfðum kertaljós og reykelsi og hjóluðum í hálfgerðri hugleiðslu. Og það var mjög góð ásókn í þessu. Byrjuðum í júní, sem þótti glapræði því þá væru offitusjúklingar að huga að öðru en líkamsrækt að öllu jöfnu. En námskeiðin fylltust og við vorum hjólandi yfir sumartímann. Besti tíminn er yfir sumarið þegar borða má hollt grænmeti og stunda göngu og annað slíkt.“

Ekkert einelti – engin leiðindi

En, við erum komnir framúr okkur í frásögninni. Þú birtist svo gott sem nakinn í Dagsljósi, frammi fyrir alþjóð – og þessi þáttagerð stóð í sjö mánuði samfellt; var ekkert híað á þig?

Fjölmiðlarnir elskuðu Gauja litla, einkum Séð og heyrt en þar var Gaui litli fastagestur árum saman.
„Nei, ekkert einelti, háð og spé. Það var svona, ég varð aldrei fyrir því. Börn ánetjuðust þessum þáttum eða þótti þeir skemmtilegir. Foreldrar kvörtuðu undan því hversu seint þættirnir voru á dagskrá, því börnin neituðu að fara að sofa fyrr en Gaui litli væri búinn í sjónvarpinu. Börn fylgdust vel með, farin að senda inn teikningar og við ákváðum að vera með teikningasamkeppni. Og ég hengdi upp allar teikningarnar í Perlunni. Og svo var einn verðlaunaður; snérist um Gauja litla, heilbrigði og hreysti. En, nei, ég varð aldrei fyrir neinu aðkasti og hef í rauninni aldrei orðið fyrir neinum leiðindum í kringum þetta – þvert á móti.“

Fastagestur í Séð og heyrt

Þetta er merkileg staðreynd. Þegar fólk talar um að tempra verði allt tal um feita er kannski verið að ganga út frá einhverju sem er ekki fyrir hendi. En, þá er til þess að líta að Gaui litli sló vopn úr höndum hugsanlegra fjandmanna feitra með hispurslausri og einlægri framgöngu.

„Ég var sjálfur pínulítið að gera grín að þessu, tók þann pólinn sjálfur og afhjúpaði þetta bull í kringum þetta dót allt. Og fjölmiðlar fjalla alltaf mjög jákvætt um þetta. Var rosalega mikið í Séð og heyrt á þessum tíma, menn héldu að ég ætti hlut í Séð og heyrt. Held ég hafi slegið met. Eftir að námskeiðin byrjuðu var ég með tískusýningu í Kringlunni, þar sem var búinn að setja áburð, gróðuráburð, fjögur tonn á á brettum sem var afrakstur námskeiðanna; fyrir hvert kíló sem einstaklingarnir á námskeiðunum hafa misst yfir árið. Þetta gáfum við Landgræðslunni til dreifingar á hálendinu. Þannig að við vorum að skila til baka.“

Stoltur af Átvaglaskógi

Og það er ekki ofsögum sagt; ritstjórar Séð og heyrt á þeim tíma virðast hafa verið með Gauja litla á heilanum, því þar er fjallað um hann reglulega. Við flettum úrklippubókunum og Gaui dæsir.

„Ég er náttúrlega ekki í sama ástandi og +eg var í þá. Ég veit ekki alveg hvað ég hefði gert í dag ef þetta hefði komið upp. Þannig að ... já, auðvitað dæsir maður. Þetta var átak.“

En, Gaui er stoltur af mörgu sem hann tók sér fyrir hendur í kjölfar og í tengslum við það þegar hann lét sem mest til sín taka og var hvað fyrirferðarmestur á þessu tímabili.

„Já, í framhaldinu af áburðinum sem ég dreifði á hálendið þá gróðursettum við ári seinna tré fyrir hvert fallið kíló. Gerum það í landi Hamars. Sem skátar reka á Akureyri. Þar á ég vin sem heitir Tryggvi Marínósson, var yfirmaður hjá bænum þá, garðyrkjustjóri Akureyrarbæjar, hann úthlutaði mér landi og þar gróðursettum við á hverju ári, stundum nokkur þúsund plöntur. Ég fékk síðan listamann á Akureyri til að skera út í stóran rekaviðardrumb styttu af manni sem við kölluðum Vambarpúkann. Og hann var grátmúr feita mannsins. Síðan var lundur í þessum skógi sem hét Feiti lundur, og skógurinn heitir Átvaglaskógur. Af því að við ætluðum okkur að verða stærri en Vaglaskógur handan fjarðar. Ég var á Akureyri um daginn og tók myndir af því hversu stór skógurinn er orðinn. Já, þetta er orðinn gríðarlega myndarlegur skógur. Ég var stoltur þegar ég gekk um þetta skóglendi nýverið. Þarna eru tré í fjögurra fimm metra hæð.“

Auðvelt að selja töfralausnir

Offitubransinn veltir gríðarlega miklum fjármunum. Gaui segist hafa heyrt fyrir tveimur árum talað um fjóra milljarða á ári. Áætlað. Og þetta hefur ekki minnkað.

„Þetta er mikil velta. Og kemur ekki á óvart. Það var alltaf verið að reyna að selja mér allskonar hluti til að ná árangri. Í formi dufta, eða pillur, offituplástra, brennslu þetta og brennslu hitt. Og það er náttúrlega þannig með okkur sem eigum við þetta vandamál að stríða, það blakta á okkur eyrun í hvert skipti sem við heyrum af einhverjum nýjum töfralausnum sem gætu hugsanlega hjálpað okkur að komast í gegnum þetta,“ segir Gaui.

Gaui nefnir fyndið dæmi til sögunnar, sem sýnir fram á hversu öfugsnúið þetta getur verið.

Gaui litli, before and after. Það hefur gengið á ýmsu, sigrar og ósigrar, í glímunni við aukakílóin. En, Gaui hefur þó aldrei nálgast það aftur að verða 170 kíló.
„Ég gerði grín að megrunarplástrinum í einu innslagi í Dagsljósi. Í kjölfarið hringdi í mig kona frá Húsavík sem hafði átt einhver tvö bretti af þessum plástri í bílskúrnum. Sem ekki höfðu selst, en eftir að ég hafði fjallað um þá í þættinum, þá ruku þeir út. Þó ég væri að gera grín að þessu halda menn í vonina, að þetta sé það sem geti hjálpað þeim.“

Gert út á örvæntingu hinna feitu

Við erum þá að tala um að verið sé að gera út á trúgirni og örvæntingu fólks?

„Jújú, en er það ekki allstaðar og í öllu?“ spyr Gaui stóískur. Hann bendir á að vandinn sé býsna víðtækur. Ekki sé svo langt síðan til dæmis marz-súkkulaðistykkið stækkaði um 25 prósent. Allir skammtar stækkuðu. „Og menn voru að fá meira fyrir minna. Skammtarnir urðu stærri. Og maður hefur látið glepjast af allskonar gylliboðum.“

En, eru menn ekki að selja eitthvað húmbúkk í þessum offitubransa?

„Ég hef alltaf talað um að Herbal Live virki þar til menn hætta á Herbal Live. Málið er að sumt af þessu virkar meðan á því stendur. Þú getur breytt um mataræði og gerir það yfirleitt á mjög öfgakenndan hátt, tekur út alla hluti og býrð til eitthvað rosalega niðurskorið fæði sem þú kokksar svo á þegar á reynir og tíminn líður. Ekkert eitt sem gildir fyrir alla eða hentar öllum. Þá væri búið að finna einhverja töfralausn. En það er ekkert þannig. Það sem hentar mér þarf ekki að henta þér. Ég þarf að finna leið sem ég er andlega sáttur við og gæta hófs í salti, sykri og þú getur talið upp hveiti... í raun og veru hvað sem er. Þetta er svo persónulegt hvað hentar og ekki hentar.“

Hrossalækningar og snákaolíusölumenn

En, sama hversu mikið er fjallað um þetta, þá er staðreyndin sú að sífellt sígur meira og meira á ógæfuhliðina. Offita er helsti heilsufarsvandi Vesturlanda í dag. Þetta þýðir einfaldlega það að á þessum tuttugu árum hafa snákaolíusölumenn vaðið uppi og selt gervilausnir?

„Stöðugt bætast fleiri við, sem vilja gefa sig út fyrir að vera með töfralausnir fyrir okkur hina feitu. Aðilar sem gera út á veikleika þessara einstaklinga með gylliboðum og gervilausnum og hagnast á því. Þetta hefur ekkert breyst, ef eitthvað er tel ég að þetta hafi versnað. Og ástæðan er náttúrlega sú að við neitum að horfast í augu við vandann. Sem er andleg líðan. Það er bara miklu erfiðara og flóknara að takast á við það. Ekki eins einfalt og að gefa mér eina pillu til lausnar á þessu vandamáli. Það var til dæmis í sjónvarpinu nú um daginn; skurðlæknir að kynna eitthvað utanáliggjandi tæki þannig að þú borðaðir fulla máltíð en gætir dælt af maganum einum þriðja þess sem þú settir ofan í þig. Mér finnst mikið nær en að ganga í gegnum þá þolraun, með öllum þeim fylgikvillum sem augljóslega fylgja slíkum hrossalækningum, að hvetja frekar fólk að borða frekar annan hvern bita. Hvaða bull er þetta? Þarna er verið að fóðra fíknina með brjálæðislega hættulegu, að mínu mati, inngripi.“

Gaui hefur í sjálfu sér engar hugmyndir um hvernig hægt er að taka á slíku, nema þá með bráðnauðsynlegri viðhorfsbreytingu.

Ofneysla matar er fíkn

Allt ber þetta að sama brunni. Gaui litli segir málið einfaldlega þannig að þeir sem eru of feitir séu fíklar. Rétt eins og spilafíklar eða alkóhólistar. Talið að 96 prósent þeirra sem ná árangri í baráttu við offitu falli.

Blaðamennirnir elskuðu Gauja litla, enda var hann alltaf til í að sprella þegar svo bar undir.
„Þetta er sama hlutfall og fall alkóhólista. Þetta er í það minnsta mjög há tala. Nú sjáum við reglulega fréttir: Missti 50 kíló! Sjáið myndirnar! En, því miður segja staðreyndirnar okkur það að fólk verði komið á sama stað og það var, vel flest. Auðvitað frábært ef fólk er að ná mjög góðum árangri. Það er auðvitað æðislegt. En, sigurinn er ekki unninn við það að missa þessi kíló.“

Og það er jafnvel ekki æskilegt að ná þeim af sér með svo bröttum hætti og sagt er frá með reglubundnum hætti?

„Nei. Það er hið besta mál að lifa heilbrigðu lífi, hreyfa sig og breyta um mataræði. En hreyfingin ein, ef þú ert að missa kíló, hefur lítið að segja og mataræðið eitt hefur lítið að segja. Þú þarft að breyta mataræðinu og stunda samhliða hreyfingu ef þú ætlar að ná árangri. En fyrst og síðast: Til þess að ná varanlegum árangri þarftu að vinna með hausinn á þér. Þú þarft að spyrja þig: Hvers vegna ertu að misnota mat? Aðrir misnota aðra hluti, spilafíkn, áfengi, sem tengist einhverju sem er fíkn. Við höfum ekki stjórn, við borðum í sorg og í gleði.“

Fer að síga á ógæfuhliðina

Gaui getur trútt um talað. Hann hefur reynsluna og hann hefur velt þessu fyrir sér nú í tuttugu ár. Markvisst.

„Ég tók af mér 52 kíló á sjö mánuðum. Hélt því lengi vel eftir að ég byrjaði að kenna og halda mér vel við. Síðan fór að halla undan fæti. Bætist á mig hægt og rólega. Maður gefur eftir. Telur sér trú um að maður þoli einn bjór, get alveg tekið einn kleinuhring, ég hjóla bara og brenni honum af. Byrja að rökræða við mig þar til komið er í óefni. Ég fór að telja mér trú um að þessi hlutir séu í lagi.“

Púkinn á vinstri öxlinni hafði betur í rökræðum við engilinn á þeirri hægri. Smátt og smátt tók að síga á ógæfuhliðina og til baka komu um 20 kíló.

„Þetta rokkaði. En, ég fór aldrei á núllpunkt aftur. Þyngstur var ég 175 kíló. Ég var 108 kíló þegar ég er hvað grennstur eftir sjónvarpið. Þá voru menn að röfla um kjörþyngd sem mér finnst í rauninni algjört kjaftæði. Ef þú ert sáttur ertu í góðum málum. Ég get verið í góðu formi feitur, og í betra formi en grannur og í lélegu formi. Fitan kemur þar málinu ekkert við. Má líta á það þannig. Enginn samnefnari með því að einstaklingurinn sé feitur, þá geti hann ekki hreyft sig eða er í tómu tjóni. Þekki mjög marga einstaklinga sem eru í mjög góðum málum.“

En, nú er ýmis framkoma sem farið hefur fyrir brjóst þeirra sem eru yfir kjörþyngd og viljað hafa til marks um fordóma?

„Já, algjörlega. Einhvern tíma sá maður hugleiðingar að feitir ættu borga eitt og hálft fluggjald. Því þeir tækju meira pláss. Það var eitt. Svo var einhver pæling um að bjóða feitum framlengingu sætisbeltinu í flugvélum, þetta var niðrandi en kannski var nauðsynlegt að bjóða upp á þetta. Við getum líka talað um þessa fordóma þegar konurnar mínar fóru í búðir, voru að versla á dóttur sína og þá segir starfsstúlkan: „Nei, því miður, við eigum ekkert á þig hér.“ Þetta var viðhorf sem þær urðu fyrir sem komu til mín í námskeið. Og átti reyndar bæði við karla og konur. En það var ekkert hægt að kaupa stór föt hér og sérstaklega áttu konur erfitt með að kaupa íþróttaföt. En, ég fór þá í viðræður við aðila um að sauma sérstakan klæðnað, gerðum fatalínu fyrir feita,“ segir Gaui litli. Og það er einkennandi, þegar litið er yfir feril hans í þessum geira hversu lausnamiðaður hann hefur verið.

En, hvernig horfa hin misvísandi skilaboð við Gauja, þá varðandi orð og hugtök eins og fitufordómar og líkamsvirðing, sem einhver gæti talið ganga út á það að fólk eigi bara að sætta okkur við þessa yfirþyngt en svo á móti kemur að við eigum líka að klappa þegar einhverjum tekst að ná af sér einhverjum kílóum. Er þetta ekki augljós mótsögn?

Meðvirknin er Þrándur í Götu

„Líkamsvirðing er annað,“ segir Gaui litli. „Við eigum að bera virðingu fyrir okkar líkama, ekki refsa honum eða tala hann niður. Um leið og þú ert orðinn sáttur í eigin skinni er eftirleikurinn alltaf auðveldari. Hins vegar finnst mér ekki verið að taka á vandanum á alveg réttum tökum.“

Og þá komum við að því atriði sem er Þrándur í Götu, að mati Gauja, sem er stæk meðvirknin sem gegnsýrir alla þessa umræðu. Meðvirkni er reyndar nokkuð sem hefur látið Gauja ósnortinn, og hugsanlega ástæðan fyrir því hversu beint honum tókst að ávarpa þennan vanda sem fólk vill fara í kringum eins og köttur um heitan graut.

„Við erum eins og hverjir aðrir fíklar og heimtum meðvirkni samfélagsins. Við erum ekkert að fetta fingur út í það þó einhver sé ekki að ná einhverjum brjálæðislegum árangri. Ekki að tala hann niður rétt á meðan en við hrósum honum þegar menn ná árangri. Undir eðlilegum kringumstæðum kemur þessi meðvirkni inn í dæmið. En þegjum þegar illa gengur. Ekki að ég sé að kjósa að menn séu alltaf að tala um að það þegar maður er að fitna og menn að fetta fingur út í það, það getur verið mjög hvimleitt. Og hrós er jákvætt. Það sem rífur mann áfram í að standa sig í því sem maður er að gera. En við erum mjög meðvirk í öllu sem við gerum. Það er okkar vandamál. Og það að við sitjum uppi með frjálsan vilja til að velja og hafna er erfitt.“

Þarf að fara dýpra í vandann

Offita er mesti heilsufarsvandi Vesturlanda og meðan fólk deilir um hvernig beri að orða þennan vanda fer ástandið hríðversnandi dag frá degi?

„Jájá,“ segir Gaui. „Málið er að við eigum í erfiðleikum með að finna einhverja patentlausn á þessu öllu saman. Það er af því að þetta er svo persónubundið.“

Menn veltu fyrir sér ýmsum hliðum á þessum sýnileika Gauja litla og hér er honum stillt upp við hlið Happy Jack Eckert í tímaritinu Fjölni árið 1997.
Gaui litli bendir aftur á að um sé að ræða fíkn og erfitt sé að finna einhverja eina leið í þessu, einhverja góða meðferðarleið. „Þetta er svo rosalega persónubundið. Þeir sem skráðu sig á námskeiðið hjá mér, 20 prósent af þeim skiluðu sér ekki. Ég hringdi í liðið og spurði af hverju það hefði ekki komið? Þá var það út af því að það mætti en þorði ekki inn. Þá stofnaði Ég heilsugarðinn. Þar sem Ég var með námskeið fyrir fólk sem vildi ekki inn á líkamsræktarstöðvar, við hittum einu sinni á viku og svo stunduðu einstaklingarnir hreyfingu sem hentaði þeim. En, þeir voru vigtaðir hjá mér einu sinni í viku og svo vorum við með fræðslu og töluðum saman og allt það. Það sem kom á óvart var það að þessi hópur skilaði eiginlega betri árangri en sá sem stundaði líkamsræktinni. Þar náðum við að ræða orsök og afleiðingu. Tókum andlegra og dýpra á hlutunum.“

Dagsljósið var gæfuspor

Gaui telur að ef einhver árangur eigi að nást þurfi að beina sjónum af rótunum. Of feitum börnum og unglingum, sem fer hlutfallslega fjölgandi ár frá ári.

„Það er ekki eins og við höfum ekki gert neitt. En þeim fer samt fjölgandi, það er náttúrlega þetta hreyfingarleysi. Ég er ánægður með Pókemon-leikinn, jákvætt og hvetur til hreyfingar. Þar er komið orð í þeirra orðaforða sem þau þekktu ekki sem er göngutúr. Ég var með barna og unglinganámskeið sem gengu mjög vel en við fórum óhefðbundnari leiðir. Við getum klárlega gert betur.“

Gaui segir að það vanti markvissa opinbera stefnu, klárlega megi gera betur. En, ef við beinum kastljósinu snöggt aftur og að Dagsljósinu; nú tuttugu árum síðar, sérðu eftir því að hafa látið þig hafa þetta?

„Nei, Dagsljósið var gæfuspor fyrir mig. Ég myndi kannski í dag gera það pínulítið öðru vísi og þá á ég við það sem lýtur að mér persónulega. En, ég sé ekki eftir neinu. Get bara þakkað fyrir allan þann stuðning sem ég fékk, bæði í Dagsljósi og frá almenningi enn þann dag í dag.“

Væri til í að snúa til baka

Gaui setti á sig gríðarlega pressu, með því að takast á við vanda sinn opinberlega. Hann telur það hafa verið heillaspor. Og hann er ánægður með það að hafa látið til sín taka í heilsugeiranum í kjölfarið, og er stoltur af mörgu sem því sem hann gekkst fyrir.

„Ég gafst upp á þessu, árið 2004 legg ég þetta endanlega á hilluna. Það þurfti í þetta fjármagn. Ég var að gera þetta á eigin spýtur og hefði þurft meiri opinberan stuðning, fjármagn til að geta staðið betur undir því sem ég var að gera. Ég til dæmis skrifaði kennslugögn fyrir fullorðna og börn og unglinga. Þar sem í grunninn var unnið með börnunum og foreldrunum. Það gerðum við á barna og unglinganámskeiðunum að við tókum foreldrana við. Þau eru til enn. Ég gaf þau aldrei út. Það væri hægt með breytingum að vinna þau til útgáfu en ég hafði ekki bolmagn til að halda þessu áfram í rauninni.“

Frægir í formi

Gaui fór úr heilsugeiranum á fornar slóðir leikmyndagerðar.

„Já, í rauninni gerði ég það. Og hélt áfram að gera það sem ég var góður í. Ég var reyndar mjög góður í þessu. Og væri það eflaust ef ég myndi snúa mér að þessu aftur. Og ég væri til í að gera það með einhverjum sem hefur bolmagn, getu og nennu og áhuga á að vinna með þessa hluti áfram. Því mér fannst þetta skemmtileg vinna, vinna með fólki og hef ágætis lag á börnum og unglingum.“

Eitt af því sem fylgdi frægðinni var þátttaka í sjónvarpsþáttum sem voru sýndir á Skjá einum: Frægir í formi. Gaui segir að það hafi verið þar hafi verið reynt að taka á ýmsum þáttum og þar var mikið tekið á andlegri líðan í bland við hreyfingu. Umræður og fylgst með öðrum.

Feitir orðnir að sirkusdýrum

En Biggest Looser-þættirnir; nú er það svo að í stað þess að nálgast þennan vanda að einhverju viti sé vilji samfélagsins að sætta sig við hann með því að gera hann að einhvers konar skemmtiefni. Feitir eru orðnir að einhvers konar sirkusdýrum?

„Já, það hefur komið í ljós að þeir sem hafa tekið þátt séu ekki allskostar ánægðir. Að þetta hafi verið of erfitt og bratt. Menn eru pískaðir áfram, einkum keppni þjálfarann meðan hinir feitu eru eins og viðföng. Það kemur stundum fram að þjálfarinn er verulega óánægður, að sá feiti hafi brugðist sér.“

Þetta hlýtur að mega teljast neikvætt í sjálfu sér?

„Jú, mér finnst þetta neikvæðir þættir. Ég misskildi þetta fyrst, biggest looser, ekki að það væri sá sem missti mest af kílóum heldur sá sem myndi tapa sem missti minnst; að sá einstaklingur væri biggest looser. Þetta er öfugsnúið. Stundum er ég að fylgjast með til að átta mig á hvaða aðferðum er beitt. En auðvitað er þetta eins og með aðra þættir sem eru pródúseraðir, að það þarf að vera eitthvað drama, annars er ekkert gaman. Það var svo sem ekkert drama hjá mér.“

Baráttunni við aukakílóin lýkur aldrei

Undanfarin ár hefur Gaui litli haldið til í Hvalfirði þar sem hann rekur Hernámssetur í félagsheimilinu Hlöðum Hvalfjarðarströnd. „Ég er þar með tjaldsvæði og veitingaaðstöðu. Er með dagskrá hér fyrir fyrirtæki, stofnanir og hópefli. Námskeið og fyrirlestra, brúðkaup, ættarmót og þetta hefur gengið ágætlega. Höfum verið að byggja þetta upp síðustu árin og er alltaf aukning. Stórt og mikið safn sem segir sögu hernámsins á Íslandi; söguna sem gerðist hér í Hvalfirði sem er stórmerk. Þetta er að vísu einkasafn en metnaðurinn er mikill. Hér fæ ég útrás fyrir það sem mér finnst skemmtilegt sem er leikmyndagerð og söfnunaráráttan, sem ég hef verið haldinn alla tíða.“

En, baráttan við aukakílóin, hún er vart að baki?

„Nei, ég glími við þetta eins og hver annar einstaklingur, sem á við þetta vandamál að stríða að fitna. Og þarf að vera meðvitaður um það alla daga. Eitt af því sem ég þarf að passa mjög vel upp á er að borða og borða reglulega. Sá sem borðar reglulega og ekki eftir átta á kvöldin er í góðum málum. Þetta er eins og hver önnur brennsluvél og þú þarft að moka kolum á hana til að halda henni gangandi. Þeim mun betur sem þú hugsar um hann líkamann, þeim mun auðveldari er eftirleikurinn. Við eigum við það vandamál að stríða að við hugsum ekki um okkur sem einstaklinga, alltaf svo upptekin að því að vera einhvers staðar annars staðar með hugann. Þetta er flótti.“

Feitir orðnir fleiri

Í dag líður Gauja litla vel, hann er í góðu jafnvægi og lítur alltof vel út. „Sko, ég myndi samt sem áður flokkast sem of feitur, en ekki þannig að ég þjáist af offitu.“

En, mælikvarðinn hefur að einhverju leyti færst til á þessum tuttugu árum, ekki satt. Feitir eru orðnir svo miklu fleiri?

„Kannski að einhverju leyti. Viðmiðin hafa breyst sökum aukinnar umræðu um líkamsvirðingu. Menn eigi að vera sáttir í eigin skinni. Og að andlega hliðin spili mikinn þátt í líkamlegu atgervi. Andlegt jafnvægi hjálpar til við að menn nái tökum á matarfíkn.“

Erfitt að breyta viðhorfum

En, þá rétt í lokin að stöðu mála í dag, hvað þetta varðar: Við höfum kannski ekki náð að komast mikið áfram?

„Nei, mér dettur í hug Valdimar söngvari, sem var mikið í fréttum nýverið vegna þátttöku sinnar í maraþoninu. Mikið afrek af hans hálfu sérstaklega í ljósi snjallsíma og samfélagsmiðla – á mínum tíma hefði þetta verið mikið erfiðara ef umfjöllun hefði verið eins opin og hún er í dag. Hann er algerlega berskjaldaður. En, er gríðarlega góð fyrirmynd. Fólk verður að átta sig á því að hlaup fyrir svo þungan mann felur í sér mikið álag fyrir stoðkerfið allt. Sem hann og ræddi opinskátt um, að þetta hafi ekki verið einfalt. En, ég velti fyrir mér þeim spurningum sem hann fékk í tengslum við þetta; hvort röddin myndi breyst þegar hann grenntist, svipaðar spurningar og ég fékk: Hvort ég yrði ekki leiðinlegur þegar ég myndi grennast? Síðan var hann spurður hversu mörg kíló hann hefði misst? Eins og það væri aðalatriðið – sem það er ekki. Með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu léttast menn en þeir bæta líka á sig vöðvamassa. Þyngd er ekki aðalatriðið, eins og við sjáum alltaf slegið upp, heldur ummálið. Og andleg líðan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×