Íslenska körfuboltalandsliðið lenti í riðli með Belgíu, Sviss og Kýpur þegar dregið var í riðla í Þýskalandi í dag fyrir undankeppni Eurobasket 2017.
Íslenska landsliðið hefði vissulega getað verið mun óheppnari með riðil sem sést kannski á því að Svíar enduðu í riðli með Rússum og Bosníumönnum, Ungverjar eru með Makedóníu og Bretlandi í riðli og þá lentu Danir með Þjóðverjum, Hollendingum og Austurríkismönnum.
Það breytir ekki því að Ísland er að fara að mæta sterkum þjóðum í þessum A-riðli og staðreyndin er sú að aðeins efsta liðið er alveg öruggt með sæti á Eurobasket 2017 þó að fjögur af sjö liðum í öðru sæti komast þangað líka.
Belgar eru fulltrúar efsta styrkleikaflokksins í riðli Íslendinga. Belgar voru með á síðasta Evrópumóti og unnu þá þrjá leiki í riðlinum og komust í sextán liða úrslitin. Belgar unnu Eista, Litháa og Úkraínu í riðlinum en féllu síðan út fyrir Grikklandi í sextán liða úrslitunum.
Svisslendingar komust ekki á EM en þeir sátu eftir í riðli í undankeppninni með Ítölum og Rússum sem komust síðan bæði á Eurobasket. Svissneska liðið byrjaði hinsvegar undanriðilinn rosalega vel og vann Rússa í fyrsta leik.
Það var hinsvegar eini sigur svissneska liðsins í riðlinum og Svisslendingar töpuðu sem dæmi seinni leiknum í Rússlandi með 45 stigum, 56-101.
Íslenska liðið ætti síðan að þekkja ágætlega til Kýpurliðsins enda hafa þjóðirnar mæst oft á Smáþjóðaleikum og oft hefur soðið upp úr. Kýpur var þó ekki með á síðustu leikum sem fóru fram hér á Íslandi.
Leikir íslenska liðsins fara allir fram frá 31. janúar til 17. september en leikið er heima og að heiman. Leikdagarnir eru 31. ágúst, 3., 7., 10., 14. og 17. september.

