Handbolti

Umfjöllun og myndir: Portúgal - Ísland 21-20 | Strákarnir komnir á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna eftir leik.
Íslensku strákarnir fagna eftir leik. vísir/epa
Ísland er komið á HM í Frakklandi á næsta ári þrátt fyrir eins marks tap, 21-20, fyrir Portúgal á útivelli í kvöld.

Íslensku strákarnir unnu fyrri leikinn í Laugardalshöll á sunnudaginn 26-23 og einvígið samanlagt 46-44.

Staðan var 10-7 í hálfleik í leiknum í kvöld og Ísland gat vel unað við þá stöðu miðað við sóknarleikinn sem liðið bauð upp á.

Skotnýtingin var aðeins 30% og íslenska liðið tapaði átta boltum í fyrri hálfleik. Þá skoraði Ísland ekki eitt einasta mark eftir hraðaupphlaup.

Aron Pálmarsson fann sig engan veginn og var búinn að klúðra fimm skotum áður en hann skoraði sitt fyrsta mark á lokamínútu fyrri hálfleiks. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Arnór Atlason voru heldur ekki góðir og línu- og hornaspilið var ekki upp á marga fiska.

Sem betur fer var varnarleikurinn góður og Björgvin Páll Gústavsson hélt uppteknum hætti frá því í fyrri leiknum. Björgvin varði alls 16 skot í leiknum, eða 43% af þeim skotum sem hann fékk á sig.

Seinni hálfleikurinn var miklu betri hjá íslenska liðinu. Varnarleikurinn áfram til fyrirmyndar sem og markvarslan hjá Björgvini og sem betur fer lagaðist sóknarleikurinn mikið.

Aron fann sig betur og þá kom Rúnar Kárason með mikilvægt framlag, skoraði þrjú góð mörk og var ógnandi.

Þrátt fyrir bættan sóknarleik gekk íslenska liðinu bölvanlega að jafna metin, ekki síst vegna frábærrar frammistöðu Quintana í portúgalska markinu. Þessi öflugi markvörður varði alls 26 skot í leiknum, þar af þrjú vítaköst.

Íslandi tókst loksins að jafna í 17-17 þegar Ásgeir Örn skoraði annað af tveimur mörkum sínum í leiknum. En þá komu þrjú portúgölsk mörk í röð og miðað við þá stöðu var íslenska liðið úr leik.

En þá sýndu íslensku strákarnir styrk, lokuðu vörninni og tókst að jafna metin í 20-20. Kári Kristjánsson skoraði tvö þessara marka og Aron eitt en markið hans kom eftir frábæra baráttu hjá Arnóri Þór Gunnarssyni sem bjargaði því að boltinn færi út af.

Portúgal skoraði síðasta mark leiksins en það dugði ekki til. Lokatölur 21-20 og Ísland er komið á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×