Heiðrún er aðeins 24 ára gömul og lék með Stjörnunni í Domino´s deild kvenna síðasta vetur. Heiðrún þekkir vel til hjá KR en hún var í síðasta Íslandsmeistara- og bikarmeistaraliði félagsins.
Heiðrún lék fyrst körfubolta með Ungmennafélagi Hrunamanna á Flúðum en gekk svo í raðir KR og varð bikarmeistari með liðinu árið 2009, Íslandsmeistari 2010 og Íslands og bikarmeistari með unglingaflokki kvenna 2010.
Heiðrún hélt sama ár til Bandaríkjanna þar sem hún fór í menntaskóla og þaðan í Coker háskóla í Suður Karólínuríki þar sem hún spilaði körfubolta með námi í 4 ár. Heiðrún lauk BA gráðu í sálfræði og upplýsingatækni frá Coker háskóla vorið 2015 áður en snéri aftur heim til Íslands. .
KR-liðið lenti í öðru sæti í 1. deildinni á síðasta tímabili en tapaði í úrslitaeinvíginu á móti Skallagrími. KR tók ekki sæti í Domino´s deildinni þegar það losnaði fyrr í þessum mánuði.
Heiðrún sagðist í samtali við fésbókarsíðu KR vera ánægð með að vera komin í raðir KR á ný að hún hafi fylgst með góðri stemningu í liðinu síðastliðinn vetur og hlakkar til að taka þátt í henni. Heiðrúnu til aðstoðar verður Halldór Karl Þórsson.
Á sama tíma endurnýjuðu sex leikmenn meistaraflokks samninga sína eða þær Perla Jóhannsdóttir, Gunnhildur Bára Atladóttir, Kristjana Pálsdóttir, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir og Rannveig Ólafsdóttir.