Handbolti

Guðjón Valur fimmti markahæstur í Þýskalandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur er einn fimm leikmanna sem eru komnir með 100 mörk í þýsku deildinni í vetur.
Guðjón Valur er einn fimm leikmanna sem eru komnir með 100 mörk í þýsku deildinni í vetur. vísir/getty
Þegar keppni í þýsku úrvalsdeildinni er hálfnuð er Guðjón Valur Sigurðsson í 5. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Eftir tveggja ára dvöl hjá Barcelona sneri landsliðsfyrirliðinn aftur til Þýskalands í sumar og gekk í raðir meistara Rhein-Neckar Löwen. Guðjón Valur lék áður með liðinu á árunum 2008-11.

Guðjón Valur hefur skorað 100 mörk í 17 deildarleikjum það sem af er tímabili, eða 5,9 mörk að meðaltali í leik.

Guðjón Valur hefur skorað 80 mörk í opnum leik og 20 mörk úr vítaköstum. Skotnýting hans er frábær, eða 79,4%.

Johannes Sellin, leikmaður Melsungen, er markahæstur í þýsku deildinni með 118 mörk. Robert Weber hjá Magdeburg kemur næstur með 109 mörk.

Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Bergischer, er næstmarkahæsti Íslendingurinn í þýsku deildinni. Akureyringurinn hefur skorað 70 mörk í vetur og er í 22. sæti á listanum yfir markahæstu menn.

Alexander Petersson, samherji Guðjóns Vals hjá Löwen, hefur skorað 61 mark á tímabilinu og er í 36. sæti á markalistanum. Bjarki Már Elísson hjá Füchse Berlin er þremur sætum neðar með 60 mörk.

Einni umferð er ólokið í þýsku deildinni áður hún fer í frí vegna HM í Frakklandi. Leikirnir í 18. umferð fara fram 26. og 27. desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×