Viðskipti innlent

Efnahagur Kína styrkist en varla til frambúðar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bifreiðaframleiðsla er í miklum uppgangi í Kína og hefur bílasala þar ekki mælst meiri í þrjú og hálft ár.
Bifreiðaframleiðsla er í miklum uppgangi í Kína og hefur bílasala þar ekki mælst meiri í þrjú og hálft ár. Vísir/EPA
Efnahagslífið í Kína hefur verið að taka við sér að undanförnu. Talið er að auknum ríkisútgjöldum til framkvæmda sé þar helst að þakka ásamt mikilli sölu á húsnæði.

Iðnframleiðslan jókst um 6,3 prósent í ágúst frá sama mánuði árinu áður og hefur ekki verið meiri í tvö ár. Þetta kom sérfræðingum á óvart enda hafði verið reiknað með nokkru minni aukningu.

Smásala jókst síðan um 10,6 prósent í ágúst og munaði þar mest um sölu bifreiða, sem hefur ekki mælst jafn mikil í meira en þrjú ár. Sala íbúðarhúsnæðis jókst um 40,1 prósent.

„Nýjustu efnahagstölur benda til þess að hagvöxtur sé að styrkjast en um leið vekja þær ugg um að fjárfestingabólan haldi áfram,“ er haft eftir Eswar Prasad í Wall Street Journal, en Prasad er prófessor við Cornell-­háskóla og fyrrverandi fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Kína.

Efnahagslífið í Kína hefur verið í nokkurri lægð undanfarin misseri eftir að hafa lengi notið mikils hagvaxtar. Efasemdir eru um að þessi velgengni nú muni endast lengi.

„Við teljum að hagvaxtarskriðurinn muni minnka árið 2017 þegar eignamarkaðurinn verður á niðurleið og bílageirinn stendur líklega frammi fyrir offramleiðslu,“ er haft eftir hagfræðingnum Tom Rafferty á fréttavef tímaritsins Fortune.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×