Viðskipti innlent

Íslenskir seðlar boðnir upp á milljónir

Snærós Sindradóttir skrifar
Gamall íslenskur hundrað krónu seðill
Gamall íslenskur hundrað krónu seðill Mynd/aðsend
Mjög fágætur íslenskur hundrað krónu seðill frá árinu 1919, sem metinn er á 3-4 milljónir króna verður boðinn upp á uppboði hjá þýsku uppboðsfyrirtæki í næstu viku, ásamt rúmlega tuttugu öðrum sjaldgæfum íslenskum seðlum. Einungis er vitað um sex eintök af þessum seðli í einkaeign í heiminum en um er að ræða 100 krónu seðil frá Íslandsbanka. Slíkir seðlar voru aðeins í umferð hérlendis um tuttugu ára skeið og höfðu mjög hátt verðgildi, eða sem nemur 150 þúsund krónum á núvirði hver.

Alls eru íslensku seðlarnir 22 talsins og er samanlagt byrjunarverð þeirra tæplega tíu milljónir króna. Seðlarnir verða boðnir upp 20. og 21. september næstkomandi hjá virtu þýsku uppboðsfyrirtæki, Cortrie-Spezial Auctions, en sérsvið þess er m.a. skartgripir, gimsteinar og antík úr.

Einkar fátítt er að jafn gott úrval af íslenskum seðlum rati á uppboð. Á uppboðinu í Þýskalandi eru alls tuttugu og tveir íslenskir seðlar, elsti þeirra var gefinn út árið 1792 en sá yngsti árið 1929. Af öðrum sjaldgæfum íslenskum seðlum á uppboðinu má nefna 50 króna seðil frá árinu 1925, útgefinn af Ríkissjóði Íslands. Byrjunarverð á honum er sett á 12 þúsund evrur, eða rúmlega 1,5 milljónir króna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×