Viðskipti innlent

Rússabanni svarað með frystigeymslu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Viðskiptabannið við Rússland olli því að risastór frystigeymsla er risin á Fáskrúðsfirði, næststærsta hús í sögu byggðarinnar. Geymslan kemur í góðar þarfir nú þegar verið er að moka upp makrílnum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Það vantar víst bara örfáa fermetra upp á að nýja húsið teljist það stærsta í sögu Fáskrúðsfjarðar. Þegar Rússlandsmarkaður fyrir makríl lokaðist í ágúst í fyrra brugðust ráðamenn Loðnuvinnslunnar við með því að ráðast í byggingarframkvæmdir.

Frystigeymslan er 40 x 60 metrar að grunnfleti og 11 metra há. Ennþá er lokafrágangur eftir.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Þetta er í raun risastór frystikista, 2.400 fermetrar að grunnfleti og ellefu metra há en byggingarstjóri var Fáskrúðsfirðingurinn Þorsteinn Bjarnason. Frystigeymslan kostaði um 700 milljónir króna og reis á aðeins fimm mánuðum. Í henni rúmast um 7.400 tonn af frystum sjávarafurðum. 

„Það er bara verið að bregðast við markaðsaðstæðum. Og menn verða að gera það bara hratt og örugglega,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Hoffelli SU-80, sem veiðir allan makrílinn sem berst á land á Fáskrúðsfirði þessa dagana.

 

Bergur Einarsson, skipstjóri á Hoffelli SU-80.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Aukið geymslurými veldur því að sjómennirnir á Hoffellinu geta haldið áfram að mokveiða makríl án þess að menn hafi áhyggjur af því hvað eigi að gera við aflann. Jafnframt léttir frystigeymslan verulega á þrýstingi á að selja frá sér afurðir þegar verðin á erlendum mörkuðum eru lág, að sögn Friðriks Mars Guðmundssonar framkvæmdastjóra. Hún gefi Loðnuvinnslunni þannig færi á að fá jafnari og betri verð.

 

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Þeir selja þetta bara í svona smáskömmtum. Þá verðum við náttúrlega að geta geymt þetta. Þetta fer meira og minna allt árið í stað þess að þetta fór allt á einu bretti. Þá verður náttúrlega að hafa pláss til þess að geyma þetta,“ segir Bergur skipstjóri.

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×