Viðskipti erlent

Veitingastaðir nota pokémona til að veiða viðskiptavini

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Veitingastaðir og verslanir víða um heim hafa gripið til þess ráðs að laða að sér pokémona í þeirri von að fleiri viðskiptavinir fylgi í kjölfarið. Það sem meira er, herbragðið virðist virka.

Hér sést margmenni á Austurvelli eftir að agn var lagt fyrir pokémona á pokéstoppi í nágrenninu. Meðal pokéstoppa þar má nefna styttuna af Jóni Sigurðssyni.
Fyrir þá sem hafa ekki nennu í að leita að kvikindunum út um allt þá er hægt að leggja agn fyrir þau gegn vægu gjaldi. Agnið er þá sett við pokéstop að eigin vali og þá birtast fleiri, og oftar en ekki sjaldgæfari, þó ekki þeir sjaldgæfustu, pokémonar við pokéstoppið í þrjátíu mínútur. Allir spilarar geta notið góðs af agninu.

Kaffihús og veitingastaðir úti í hinum stóra heimi hafa nýtt sér þennan möguleika. Sé pokéstop nálægt þeim hafa mörg þeirra keypt agn á stoppið. Þjálfarar geta þá setið á kaffihúsinu og fangað pokémona án þess að vera á flakki um allt. 

Kostnaðurinn við slíkt er hlægilega lítill en reiknað hefur verið út að það myndi kosta veitingastað 1,17 dollara á klukkustund að hafa agn fyrir framan staðinn sinn í heilan dag. Það er andvirði rétt rúmlega 140 króna á klukkustund. 

Eigandi smás pítsastaðar í New York merkti 75 prósenta aukningu á viðskiptum við sig eftir að staðurinn hóf að kaupa tálbeitu fyrir framan staðinn sinn. „Ofboðslega margt fólk hefur komið vegna þessa,“ sagði eigandi staðarins í samtali við New York Post

Í viðtali við Financial Times sagði John Hanke, forstjóri Niantic, að svo gæti farið að fólk geti látið bæta við pokéstoppum í nágrenni sínu gegn vægu gjaldi.


Tengdar fréttir

Á Pokémon-­veiðar með snjallsímanum

Ef þú sérð manneskju með andlitið grafið ofan í snjallsímann á þeysingi út um allt eru ágætis líkur á því að viðkomandi sé í þann mund að næla sér í sjaldgæfan Pokémon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×