Viðskipti innlent

Björn Steinbekk hættur sem framkvæmdastjóri Sónar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björn bað þá sem keyptu miða af honum um að millifæra inn á reikning Sónar Reykjavík.
Björn bað þá sem keyptu miða af honum um að millifæra inn á reikning Sónar Reykjavík. Vísir/Stefán
Björn Steinbekk er hættur sem framkvæmdastjóri Sónar Reykjavíkur en hann tilkynnti stjórn félagsins þetta í dag. Björn birtir yfirlýsingu þess efnis á Facebook-síðu sinni.

Í yfirlýsingunni segir Björn að hátíðin sé verkefni sem hann hefur sett alla sína orku í undanfarin ár og hann geri þetta með von um að hátíðin verði áfram hluti af tónlistarmenningu Íslands. Þá tekur hann fram að hún sé ekki á nokkurn hátt tengd þeim málum sem hann stendur frammi fyrir í dag.

Björn hefur verið í umræðunni síðustu daga eftir að hafa selt fólki miða á leik Frakklands og Íslands í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta. Hluti þeirra sem keypti miða af Birni komst aldrei á leikinn líkt og áður hefur verið fjallað um. Björn bað þá sem keyptu miða af honum um að millifæra inn á reikning Sónar Reykjavík.

Sónar Reykjavík hátíðin var fyrst haldin árið 2013 en hún er hluti af stærra batteríi sem heldur úti hátíðum víða um heim. Einhverra hluta vegna hefur aðdáendasíða Sónar Reykjavík verið fjarlægð af Facebook.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×