Vinnusvæðið blasir við frá Akureyri enda er gangamuninn Eyjafjarðarmegin aðeins um sex kílómetra frá miðbæ höfuðstaðar Norðurlands. Nú er búið að grafa 76 prósent ganganna og bormennirnir fimmtíu skynja vaxandi eftirvæntingu nú þegar farið er að hylla undir þáttaskil í verkinu.
„Það er vel fylgst með facebook-síðu okkar og heimasíðunni okkar hvernig staðan er og fólk hefur fullan skilning á því að verkið er að dragast,” segir Valgeir.
Gangagerðin er orðin um ári á eftir áætlun. Eyjafjarðarmegin var það heitt vatn sem seinkaði verkinu en Fnjóskadalsmegin kalt vatn samhliða miklu berghruni á tíu til tólf metra kafla.
„Allt saman er þetta ekkert óþekkt í jarðgangagerð. En við erum búnir að fá hérna við Vaðlaheiðargöng eiginlega allt sem hægt er að geta gerst í göngum, eiginlega meira en nóg.”

„Þegar búið verður að klára þessar vinnustyrkingar hér þá verður hægt að hefja gangagröftinn beggja vegna frá. Og þá erum við að tala um helmingi meiri afköst heldur en búið er að vera hingað til,” segir Valgeir.
Afköstin gætu þá farið upp í 80 til 90 metra á viku sem þýddi að menn þyrftu ekki marga mánuði til að klára þá 1750 metra sem eftir eru ógrafnir af 7200 metra löngum göngum.
En svo eru það spurningarnar sem brenna á, að minnsta kosti þeim sem búa nærri göngunum; hvenær slá þeir í gegn og hvenær verða göngin tilbúin?
„Ef allt gengur eftir ættum við að geta náð því í lok þessa árs, gegnumslaginu. Þá er allur yfirborðsfrágangur eftir. Það getur tekið 12-14 mánuði, sú vinna. Þannig að endanleg verklok gætu verið í árslok 2017 eða ársbyrjun 2018,” svarar framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.