Lífið

Var ákveðin í að ná þessum áfanga

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ingibjörg Ylfa með Kötu, sem er tveggja og hálfs árs þýskur fjárhundur og fíkniefnaleitarhundur embættis tollstjóra.
Ingibjörg Ylfa með Kötu, sem er tveggja og hálfs árs þýskur fjárhundur og fíkniefnaleitarhundur embættis tollstjóra.
Aðalhundaþjálfari tollstjóraembættisins, Ingibjörg Ylfa Ólafsdóttir, hefur öðlast fullgild réttindi til að kenna leitarhundaþjálfun á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu og er komin þar á útkallslista. Samtals eru tuttugu og tveir á þeim lista og Ingibjörg Ylfa eini Íslendingurinn.

Réttindin hlaut hún eftir að hafa lokið fimmþættu prófi sem haldið var á vegum tollstjóra, með heildareinkunninni „Outstanding“, eða framúrskarandi. Áður hafði hún lokið leiðbeinandanámi hjá Frontex.

„Síðan ég hóf námið á vegum Frontex árið 2014 hefur ekkert annað komið til greina en að klára þennan áfanga,“ segir Ingibjörg Ylfa sem hefur líka réttindi til að dæma úttektir á leitarhundum í öðrum löndum og vonar að til þess komi einhvern tíma.

 „Það væri auðvitað mjög mikilvægt og ánægjulegt að geta komið á slíkri samvinnu milli landa,“ segir hún.

Ingibjörg Ylfa hefur starfað við þjálfun leitarhunda hjá tollstjóra síðan 2009 og er í því af lífi og sál.

„Í fyrra var haldið grunnnámskeið fyrir leitarhunda á vegum embættisins þar sem ég var skipuleggjandi og einn af þeim leiðbeinendum sem komu að kennslu á námskeiðinu. Það námskeið var liður í innleiðingu Frontex-staðalsins hér,“ segir hún stolt.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.