Viðskipti innlent

Vinna við frumvarp gegn fjármagnsinnflæði tefst

Ingvar Haraldsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segist vonast til að hefja afnám hafta með haustinu.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segist vonast til að hefja afnám hafta með haustinu. vísir/stefán
„Við sögðum að þetta þyrfti að koma fyrir almenna losun hafta og kannski æskilegt að það hefði verið í kringum útboðið. Af því þetta var orðið svo mikið, allt sem þurfti að gera í undirbúningi þessara laga og því um líkt, reyndist það ekki mögulegt,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um frumvarp sem veita á Seðlabankanum heimild til að taka á vaxtamunarviðskiptum. Seðlabankinn tilkynnti í gær að stýrivextir yrðu óbreyttir, 5,75 prósent, en bindiskylda yrði lækkuð í 0,5 prósent í aðdraganda aflands­krónuútboðs sem fer fram þann 16. júní. Már sagði í gær að stefnt væri að því að stíga afgerandi skref varðandi afnám gjaldeyrishafta með haustinu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði áður sagt að til stæði að leggja fram frumvarp um efnið á vorþingi.

Már talaði fyrir því, við kynningu Fjármálastöðugleika Seðlabankans í apríl, að heppilegra væri að bindiskyldu yrði beitt á innflæði fjármagns í stað skattlagningar sem einnig hafi komið til álita. Ókostur skattlagningarleiðar væri að bregðast þyrfti snögglega við aðstæðum á gjaldeyrismarkaði. „Þá þýðir ekkert að hlaupa niður í þing og biðja um að breyta skattinum,“ sagði Már, enda liggi skattlagningarvaldið hjá Alþingi. Hann nefndi sæm dæmi að féð sem bundið væri gæti orðið á núll prósent vöxtum og bundið í eitt ár. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní






Fleiri fréttir

Sjá meira


×