Viðskipti innlent

Seðlabankanum verður heimilt að sekta einstaklinga um allt að 65 milljónir á dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frumvarpið liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta.
Frumvarpið liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta. vísir/gva
Alþingi samþykkti skömmu fyrir miðnætti í gær lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkum, eða aflandskrónufrumvarpið svokallaða. Um er að ræða frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem á að marka losun gjaldeyrishafta á Íslandi.

Frumvarpið er liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta sem stjórnvöld kynntu í júní á síðasta ári. Fyrsta skrefið var að leysa þann vanda sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja höfðu skapað og næsta skrefið að leysa þann vanda sem aflandskrónur skapa.

Aflandskrónufrumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra var samþykkt á Alþingi í gærkvöldi með 47 greiddum atkvæðum.Vísir/Vilhelm
Aflandskrónueignir yfir 300 milljarðar

Aflandskrónueignir eru nú yfir 300 milljarðar króna. Á vef forsætisráðuneytisins segir að líklegt sé talið að eigendur þeirra kysu að umbreyta þeim í gjaldeyri ef slíkt væri heimilt. Það kynni að hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð og fjármálalegan stöðugleika.

Dæmi um slíkar eignir séu innistæður, fjármunir á fjárvörslureikningi, skuldabréf og víxlar. Aflandskrónueignir verði áfram háðar sérstökum takmörkunum en að megintilgangur frumvarpsins sé að aðgreina aflandskrónueignir nánar en nú ert gert og með tryggilegum hætti.

Verði frumvarpið að lögum er áformað að Seðlabanki Íslands haldi útboð í næsta mánuði. Þar verður aflandskrónueigendum gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum í evrur á lægra gengi en skráð er á markaði. Viðmiðunargengið verður 220 krónur á evru en evran er á 140 krónur á markaði í dag.  Það þýðir 36 prósenta afföll miðað við markaðsverðmæti krónueignanna og þannig eru eigendunum settir ákveðnir afarkostir.

Stefán Broddi Guðjónsson segir of snemmt að segja til um beinan ávinning.
Of snemmt að reikna út beinan ávinning

Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir full snemmt að reikna út beinan ávinning ríkissjóðs eða Seðlabankans. Það sé fyrst og fremst vegna þess að ekki sé vitað hvaða fjárhæð aflandskróna kveðji Ísland í útboðinu. Hins vegar megi reikna með því að áhrifin verði jákvæð.

„Mikilvægustu áhrifin verða samt þau að ef vel tekst til við afnám hafta styrkist efnahagsleg staða landsins og þar með ríkissjóðs. Í þessu sambandi má benda á að matsfyrirtækin hafa síðustu misserin horft til skuldastöðu ríkissjóðs, uppgjöra slitabúa bankanna, efnahagsþróunar og loks til haftanna sem hindrana í bættu lánshæfi. Skuldastaðan hefur batnað, uppgjörum slitabúanna er lokið, efnahagslífið stendur nokkuð vel, sérstaklega í alþjóðlegu samhengi, og þá eru bara höftin eftir,“ segir Stefán.

Aflandskrónur sem ekki fara út í útboði Seðlabankans verða lagðar inn á reikninga sem háðir eru sérstökum takmörkunum. Reikningarnir bera litla sem enga vexti, eða 0,5 prósent, og þar af leiðandi nokkuð óhentugir fyrir aflandskrónueigendur.

„Það ferli sem boðað er í lögunum kemur mér ekki á óvart. Gert er ráð fyrir því að eigendur aflandskróna þurfi að sætta sig við töluvert lægra verð á krónum en opinbert verð gegn því að þeir geti skipt krónueignum sínum í gjaldeyri. Hvaða verð kemur í ljós í útboði Seðlabankans í næsta mánuði. Seðlabankinn býður síðan öllum þeim aflandskrónueigendum sem ekki taka þátt í útboðinu að skipta á aflandskrónueignum sínum fyrir gjaldeyri á verðinu 220 krónur fyrir evruna fram til 1. nóvember. Ég vona að útboðið takist vel þannig að lítið muni reyna á tilboð Seðlabankans og að lítið verði um fasta aflandskrónueigendur til langframa,“ útskýrir Stefán

Þá segir í lögunum að einstaklingi, sem sé raunverulegur eigandi aflandskrónueigna, sé heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Hámarksúttekt hvers einstakling er ein milljón króna á ári.

Heimilt að sekta um allt að 500 milljónir

Með lögunum er Seðlabanka Íslands heimilt að leggja stjórnvaldssektir og dagsektir fáist ekki umbeðnar upplýsingar og gögn, eða ef bankanum er vísvitandi veittar rangar upplýsingar eða kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests er ekki sinnt. Sektirnar geta numið frá 50 þúsund krónum til 50 milljóna króna á dag á einstaklinga. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið allt að 65 milljónum króna og sektir á lögaðila allt að 500 milljónum króna. Slíkum sektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi, að því er segir í lögunum.

Með lögunum er Seðlabanka Íslands heimilt að leggja stjórnvaldssektir og dagsektir á einstaklinga og lögaðila.Vísir/Andri
Tveir fjárfestingasjóðir, Eaton Vance Corp. Og Autonomy Capital, segja frumvarpið fela í sér brot á jafnræðis- og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands sem vann minnisblað um frumvarpið, segir það hins vegar ekki rétt. Löggjöfin standist grundvallarreglur um vernd eignarréttar og bann við mismunun.

Hópurinn InDefence vann jafnframt minnisblað um frumvarpið. Hann segir að þrátt fyrir að áætlun stjórnvalda hafi átt að vera grundvölluð á „hagsmunum heimila og fyrirtækja“ bíði heimilin enn. Þá hafi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki fengist svör við hvenær þjóðin muni losna undan höftum.

„Það er óásættanlegt að kröfuhafar slitabúanna og aflandskrónuhafar komist út úr fjármagnshöftum með stórar upphæðir í erlendum gjaldeyri, sem skerða varanlega lífskjör almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða á Íslandi. Enn er ekki ljóst hvenær Íslendingar munu losna úr höftunum, þótt öllum öðrum hefur verið hleypt út,“ segir í umsögn InDefence hópsins.

Frumvarpið í heild.


Tengdar fréttir

Bandarísku sjóðirnir þurfa að þola 36% afföll

Skerðingin sem bandarísku fjárfestingarsjóðirnir þurfa að þola samkvæmt lögum um aflandskrónur nemur 36 prósentum en skerðingin nemur 116-119 milljörðum króna miðað við gefnar forsendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×