Viðskipti innlent

Tekur vel í að salan á Búnaðarbankanum verði könnuð

Bjarki Ármannsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segist ánægð með það ef kanna á sölu ríkisins á Búnaðarbankanum árið 2003.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segist ánægð með það ef kanna á sölu ríkisins á Búnaðarbankanum árið 2003. vísir/Pjetur
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segist ánægð með það ef kanna á sölu ríkisins á Búnaðarbankanum árið 2003 líkt og Umboðsmaður Alþingis leggur til. Hún segist ætla að leggja það til á þingflokksfundi í dag að hún verði fulltrúi Framsóknarflokksins sem meðflutningsmaður að tillögunni en gerir þó þá kröfu að rannsókn fari samhliða fram á síðari einkavæðingu bankanna.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur lýst sig reiðubúinn til að aðstoða Alþingi við rannsókn á því hver raunveruleg þátttaka þýska bankans Hauck og Aufhäuser var í sölunni á Búnaðarbankanum en einkavæðingin var umdeild og efasemdir uppi um að þáttur þýska bankans hefði verið með þeim hætti sem kaupendur Búnaðarbankans, S-hópurinn svokallaði, héldu fram.

Umboðsmaður segir að sér hafi áskotnast gögn sem varpi ljósi á aðkomu Hauck og Aufhäuser og hafa ýmsir þingmenn lýst yfir vilja til þess að skipa rannsóknarnefnd í ljósi þeirra gagna.

Vigdís hefur ítrekað talað fyrir því að Alþingi rannsaki hina svokölluðu síðari einkavæðingu bankanna, eftir hrun, en þar telur hún að víða hafi pottur verið brotinn. Hún segir eðlilegt að ráðist verði í að skoða báðar einkavæðingarnar saman.

„Ef þessi þrettán ára gamla rannsókn sem nú verið að leggja til, sem er nota bene fyrnd, á erindi við þjóðina, þá ekki síður það sem gerðist hér á síðasta kjörtímabili,“ segir Vigdís. „Það er krafa, held ég, margra sem að þessum málum hafa komið og voru áhorfendur að því sem gerðist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×