Skoðun

Fjölbreytileiki til framtíðar

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Nútímasamfélagið Íslands hefur að geyma fjölbreytta flóru einstaklinga, þessi fjölbreytileiki á ekki aðeins við um hina fullorðnu í samfélaginu heldur eru börnin líka af ólíkum uppruna. Mikilvægt er að velta upp þeirri umræðu um réttindi barna þegar Barnamenningarhátíðin er í gangi, en yfirskrift vikunnar er fjölbreytileiki. Fjölbreytileiki er eitthvað sem er allskonar, tækifæri fyrir okkur til að átta okkur á því að við erum ekki öll eins og þurfum ekki að vera eins.



Stjórnvöld á Íslandi hafa lagt áherslu á að börn á Íslandi á hinu ýmsu menntunarstigum fái tækifæri til þess að viðhalda móðurmáli sínu. Það er ekki aðeins til þess að börn fái að halda rétti sínum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna heldur getur það orðið mjög slæmt fyrir barn að missa niður kunnáttu í eigin móðurmáli. Það hefur áhrif á sjálfsmynd barnsins og málþroska þess til framtíðar.



Það er algild þekking að góður grunnur í móðurmáli er sterk undirstaða til þess að byggja á frekari færni. Einnig er talað um að móðurmálið barnanna er tengt sterkum böndum við sjálfsmynd þess, geti barn ekki tjáð sig á eigin móðurmáli þá missi það niður meðal annars færni til þess að eiga samskipti við ættingja og vini. Í aðalnámskrá grunnskólanna segir að það sé mikilvægt fyrir sjálfsmynd barnanna með annað móðurmál en íslensku að tekið sé tillit til þess og þau fái tækifæri til að viðhalda færni sinni. Einnig er skólum gefin heimild að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli sem hluti af námi barnanna en það er á færi hvers skóla fyrir sig að útsetja það.



Það segir í Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna að öll börn eigi rétt á að viðhalda móðurmáli sínu þrátt fyrir að vera ekki staðsett í heimalandinu, er þá ekki kominn tími hjá íslenskum stjórnvöldum að taka markvissa ákvörðun í að innleiða það í aðalnámskrá Leik- Grunn- og framhaldsskóla landsins að þeim beri að veita börnum með annað móðurmál en íslensku tækifæri til þess að viðhalda móðurmáli sínu og stuðla þannig að jafnrétti til náms fyrir alla?



Er það ásættanlegt að börn með annað móðurmál en íslensku þurfi oft að eyða eigin frítíma og fjármunum forráðamanna til þess að viðhalda móðurmáli sínu sem er mikilvægur hlekkur í færni þeirra til framtíðar og styrkingu sjálfsmyndar barnanna? Er ekki kominn tími til þess að börnin fái öll sömu tækifæri til þess að læra móðurmál sitt á skólatíma og fái að nýta frítímann sinn í að stunda aðrar tómstundir?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×