Innlent

Meðalnámstími mjög fjölbreyttur milli skóla

Sæunn Gísladóttir skrifar
Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. Fréttablaðið/Ernir
Meðalnámstími nemenda við þrjá stærstu háskóla landsins, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri, var mjög fjölbreyttur meðal nemenda sem útskrifuðust árið 2015. Að meðaltali voru nemendur við HR fljótastir að ljúka bæði bakkalár- og meistaranámi.

Margt spilar þó inn í, meðal annars eru eldri nemendur við Háskóla Íslands lengur að ljúka gráðum sem lengir meðalnámstíma og þá eru nemendur við Háskólann á Akureyri, þar sem meðalnámstími er lengstur, margir í fjarnámi eða að vinna með námi.

Að meðaltali luku nemendur sem brautskráðust frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015 bakkalárnámi á 6,7 önnum eða 3,4 árum árið 2015 og meistaranámi á 4,4 önnum eða 2,2 árum. Út úr þessum gögnum er hins vegar búið að taka alla sem fengu einingar metnar inn í námið, svo og alla sem stunduðu nám á styttri námsbrautum.

Meðaltími til útskriftar nemenda til bakkalárgráðu við Háskóla Íslands árið 2015 var 4,2 ár. Þess ber að geta að í sumum tilvikum, eins og í hjúkrunarfræði, er nám til bakka­lárgráðu fjögur ár. Meðaltími til útskriftar nemenda á meistarastigi var 3,6 ár.

Hafa ber í huga að meðaltími til útskriftar er mjög breytilegur eftir aldri nemenda. Yngri nemendur stunda að jafnaði fullt nám. Eldri nemendur eru aftur á móti oftar í hlutanámi og því er námstími þeirra til útskriftar lengri. Þannig er meðalnámstími til bakkalárprófs 29 ára og yngri 3,8 ár og sami aldurshópur er 2,3 ár að jafnaði að ljúka meistaraprófi. Meðaltími til útskriftar hækkar svo eftir því sem útskriftarnemendur eru eldri.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum á Akureyri frá árinu 2015 nam meðalnámstími 9,4 misserum í bakkalárnámi til þriggja ára, eða 4,7 árum. Meðalnámstími nemenda á meistarastigi er 4,7 misseri eða 2,35 ár. Þess ber að geta að við Háskólann á Akureyri eru margar námsleiðir í fjarnámi og nemendum boðið að taka námið með vinnu, því er gert ráð fyrir að nemar taki sér lengri tíma í námið heldur en ef þeir væru að sinna náminu eingöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×