Viðskipti innlent

Stjórnarmenn Glitnis gætu fengið milljarða bónusgreiðslur

ingvar haraldsson skrifar
Stjórnarmenn Glitnis eiga von á háum greiðslum verði innheimtur umfram markmið.
Stjórnarmenn Glitnis eiga von á háum greiðslum verði innheimtur umfram markmið.
Stjórnarmenn Glitnis HoldCo og æðstu stjórnendur fyrirtækisins eiga von á háum greiðslum verði innheimtur á eignasafni Glitnis HoldCo umfram 1,17 milljarða evra.

Samkvæmt tillögu sem liggur fyrir aðalfund Glitnis HoldCo sem haldinn verður á miðvikudaginn munu stjórnarmenn og stjórnendur skipta með sér 20 prósent af greiðslum sem fáist umfram 1,17 milljarða evra og upp að 1,23 milljörðum evra. Stjórnendahópurinn fær svo 15,5 prósent af innheimtum umfram 1,23 milljarðar evra.

Í tillögunni kemur fram að hún hafi verið unnin í samráði við stærstu kröfuhafa Glitnis. 

Mike Wheeler, stjórnarformaður Glitnis á að fá í sinn hlut 26,9 prósent af greiðslunni. Þá fá hinir tveir stjórnarmennirnir, sem nú eru Tom Grøndahl og Steen Parsholt, 23,9 prósent upphæðarinnar. Stjórnin hefur einnig heimild til að semja við æðstu stjórnendur Glitnis um greiðslur upp á 26,1 prósent upphæðarinnar.

Viðskiptablaðið bendir á að ef innheimtur nemi 1,23 milljörðum evra eða hærri þröskuldinum, skipti stjórnarmenn og stjórnendur Glitnis 1,7 milljörðum króna á milli sín. Þannig fái stjórnarformaðurinn Wheeler 443,7 milljónir króna í sinn hlut, hinir stjórnarmennirnir tveir fái 406,3 milljónir hvor í sinn hlut og æðstu stjórnendur Glitnis skipti á milli sín 443,7 milljónum króna.

Upphæðin gæti þó orðið mun hærri verði innheimtur umfram 1,23 milljarða evra.

Fá milljón á dag í yfirvinnukaup

Til viðbótar fá stjórnarmenn Glitnis greiddar um 170 milljónir árlega fyrir störf sín hjá Glitni. Af því fær Wheeler 70 um milljónir króna, Parshold og Grøndahl fá um 50 milljónir hvor. Þá munu stjórnarmennirnir fá viðbótargreiðslur vinni þeir umfram 72 daga á ári fyrir Glitni. Greiðslan fyrir hvern umframdag á að nema 7000 evrum eða 985 þúsund krónum á dag samkvæmt tillögu aðalfundar.

Glitnir HoldCo er eignaumsýslufélag sem vinnur að því að ávaxta þær eignir sem eftir standa í Glitni eftir að slitum á félaginu lauk. Hluthafar eru þeir aðilar sem ekki fengu kröfur sínar í Glitni greidda að fullu við lok slitameðferðar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×