Viðskipti innlent

„Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir það að eigendur tryggingafélaganna tæmi bótasjóðina og stingi þeim í eigin vasa“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íslensku tryggingafélögin þrjú í Kauphöll Íslands hyggjast greiða eigendum sínum 9,6 milljarða í arð og kaupa af þeim hlutafé fyrir allt að 3,8 milljarða samkvæmt tillögum stjórna sem lagðar verða fyrir á aðalfundum þeirra í mars.
Íslensku tryggingafélögin þrjú í Kauphöll Íslands hyggjast greiða eigendum sínum 9,6 milljarða í arð og kaupa af þeim hlutafé fyrir allt að 3,8 milljarða samkvæmt tillögum stjórna sem lagðar verða fyrir á aðalfundum þeirra í mars. vísir/fréttablaðið
FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra áskorun um að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva milljarða arðgreiðslur sem tryggingafélögin hyggjast greiða hluthöfum sínum á næstu misserum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FÍB.

Í tilkynningunni segir að arðgreiðslurnar sem tryggingafélögin ætli að borga út komi úr bótasjóðum sem félögin hafa safnað með uppsprengdum iðgjöldum af ofáætluðum tjónum.

„Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir það að eigendur tryggingafélaganna tæmi bótasjóðina og stingi þeim í eigin vasa. FÍB hvetur ráðherra til að taka í taumana með því að gefa stjórn Fjármálaeftirlitsins fyrirmæli um að sinna lögbundnu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu,“ segir í tilkynningu FÍB.

Sjá einnig: Ný reikningsskil skapa milljarða í arð

Að mati félagsins hefur FME vanrækt skyldur sínar við almenning þar sem það hugsi eingöngu um hag fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Því verði að breyta. FÍB bendir á að FME hafi víðtækar heimildir til að hlutast til um rekstur tryggingafélaganna og geti til að mynda skipað þeim að endurgreiða tryggingatökum eign þeirra í bótasjóðum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld.

„FÍB bendir jafnframt á að ef FME ætlar að láta þessa sjálftöku afskiptalausa, þá yrði það í annað sinn á einum áratug sem stofnunin horfir aðgerðalaus á eigendur tryggingafélaga tæma bótasjóði sem þeir eiga ekki,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Bréf FÍB til Bjarna Benediktssonar má lesa í heild sinni hér að neðan:

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.Mynd/Stöð2
FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, hvetur ráðherra til að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva yfirvofandi gripdeildir tryggingafélaga á sjóðum sem sannarlega eru í eigu viðskiptavina þeirra. Ráðherra getur gripið inn í með því að gefa stjórn Fjármála¬eftirlitsins fyrirmæli um að það sinni lögbundnu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu með tryggingafélögunum.

Þrjú tryggingafélög hafa kynnt fyrirætlanir um samtals 8,5 milljarða króna arðgreiðslur á næstu dögum. Fjármunina á að taka úr bótasjóðum sem tryggingafélögin hafa safnað með uppsprengdum iðgjöldum af ofáætluðum tjónum. Þessir bótasjóðir eru skuld (tjóna¬skuld) við tryggingataka. Þeim er ætlað að mæta tjónagreiðslum, ekki arðgreiðslum.

Tryggingafélögin ætla að nýta sér nýja reikningsskilaaðferð Evrópusambandsins, sem ekki hefur verið innleidd hér á landi, til að tæma bótasjóðina.

Fjármálaeftirlitið hefur engar athugasemdir gert við þessar fyrirætlanir, þrátt fyrir að stofnunin sé skyldug til að gæta hagsmuna viðskiptavina tryggingafélaganna og tryggja að þau starfi í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Í gegnum tíðina hefur FME litið velþóknunaraugum á oftöku iðgjalda tryggingafélag¬anna og óhóflega sjóðasöfnun. Nú ber svo við að samkvæmt hinni nýju reikningsskila¬aðferð á að flytja tryggingaáhættu að mestu úr bótasjóðunum yfir í eigið fé trygginga¬félaganna. Þar sem eigið fé félaganna stendur undir gjaldþolskröfum reikningsskila¬aðferð¬ar¬innar telur FME ekkert því til fyrirstöðu að eigendur tryggingafélaganna tæmi bótasjóðina og stingi þeim í eigin vasa. Um leið segist FME reyndar hafa áhyggjur af því að iðgjöld tryggingafélaganna séu ekki nógu há og hvetur þau til „viðeigandi aðgerða.“

Stjórnvöld og almenningur geta lítið gert til að hafa áhrif á græðgi eigenda trygginga¬félaganna annað en fordæma þessa sjálftöku. Undir eðlilegum kringumstæðum væri haldreipi í Fjármálaeftirlitinu. Svo er þó ekki. FME virðist eingöngu hugsa um hag fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Ljóst er að stjórnvöld þurfa að hrista upp í Fjármálaeftirlitinu með afgerandi hætti til að það átti sig á skyldum sínum við almenning.

Óþolandi er að tryggingafélögin fái að eigna sér fjármuni sem þau hafa hirt af trygg-ingatökum með ofteknum iðgjöldum í skjóli fáokunar. Óþolandi er að þetta eigi að líðast með velþóknun þeirrar eftirlitsstofnunar sem á að gæta hagsmuna viðskiptavina tryggingafélaganna.

FME hefur ríkar heimildir til að hlutast til um fjármál og rekstur tryggingafélaganna. FME getur skipað þeim að endurgreiða tryggingatökum eign þeirra í bótasjóðunum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin.

Ef FME ætlar að láta þetta óátalið, þá yrði það í annað sinn á einum áratug sem stofnunin horfir aðgerðalaus á eigendur tryggingafélaga tæma bótasjóðina.

Virðingarfyllst

f.h. FÍB

Runólfur Ólafsson

framkvæmdastjóri


Tengdar fréttir

Ný reikningsskil skapa milljarða í arð

VÍS, Sjóvá og TM munu hafa greitt tæpa 30 milljarða til eigenda sinna frá 2013 gangi áform um arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa eftir. Félögin drógu úr afsláttum og hækkuðu iðgjöld í fyrra. Tryggingarekstur á að standa undir sér


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
REITIR
3,68
39
799.319
REGINN
1,84
16
505.526
BRIM
1,75
3
26.943
ORIGO
1,38
7
18.709
ICESEA
1,24
28
377.891

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-2,1
64
132.896
ARION
-1,6
48
1.182.045
HAGA
-0,68
13
813.564
MAREL
-0,56
28
217.501
LEQ
-0,28
1
304
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.