Innlent

Var á sextíu kílómetra hraða á brúnni þar sem Japaninn lést

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Brúin yfir Hóla í Öræfasveit er einbreið eins og fjölmargar brýr á Íslandi. Merkingar þykja sumum torráðnar fyrir erlenda ferðamenn.
Brúin yfir Hóla í Öræfasveit er einbreið eins og fjölmargar brýr á Íslandi. Merkingar þykja sumum torráðnar fyrir erlenda ferðamenn. Mynd/GoogleMaps
„Ég verð að viðurkenna að þetta þykir mér sérkennileg niðurstaða og lítil virðing borin fyrir þessum ferðamanni og mannréttindum hans,“ segir Eva B. Helgadóttir, lögmaður manns sem sætir farbanni vegna banaslyss á brú í Öræfasveit. Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að maðurinn verði í farbanni til 22. apríl.

Að því er kemur fram í greinargerð sem Eva lagði fyrir Hæstarétt telur verkfræðingur, sem lögreglan fékk til að meta hraða bíla í banaslysinu sem varð 26. desember síðastliðinn, bíl ökumannsins, sem nú sætir farbanni, hafa verið á 60 kílómetra hraða er slysið varð.

Ökumaðurinn er af kínversku bergi brotinn og starfar í London þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni. Japanskur ferðamaður lést er bílum þeirra laust saman á einbreiðri brú yfir Hólá í Öræfasveit. Þremur dögum síðar úrskurðaði Héraðsdómur Suðurlands ferðamanninn í farbann að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi. Farbannið, sem var fyrst til 1. mars, var framlengt til 22. apríl.

Eva B. Helgadóttir, lögmaður ferðamanns sem er í farbanni vegna banaslyss, segir hann ekki ætla að koma sér undan málsókn enda sé það "ómögulegt úr því sem komið er".
Eva segir í greinargerðinni að skjólstæðingur hennar hafi verið á 80 til 90 kílómetra hraða á klukkustund er hann nálgaðist brúna yfir Hólá. Hann hafi hægt á sér þegar hann sá til umferðar á móti. Hann hafi séð merki um 250 metra frá brúnni en ekki séð bíl koma úr gagnstæðri átt á þeim tímapunkti og ekki séð hinn bílinn fyrr en rétt áður en áreksturinn varð. Þá hafi hann verið á 60 kílómetra hraða. Í lýsingu lögreglu segi að „það sé aðeins blint yfir brúna þar sem ekið er upp lítilsháttar halla að brúnni beggja vegna frá“.

Eva segir að matsgerðir fyrrnefnds verkfræðings hafi verið lagðar til grundvallar í fjölda dómsmála.

„Það liggur því fyrir hlutlægt sönnunargagn sem unnt er að leggja til grundvallar um þann hraða sem ákærði var á þegar slysið átti sér stað. Hann var langt undir lögmæltum hámarkshraða,“ segir í greinargerð Evu sem kveður skýrslu verkfræðingsins jafnframt hrekja önnur gögn um hraða ökutækis ákærða við slysið. „Virðist hinn kærði úrskurður héraðsdóms líta algerlega fram hjá því og telur ákærði forsendur hins kærða úrskurðar byggja á mjög hæpnum grunni.“

Þá segir Eva að úrskurður Héraðsdóms Suðurlands um farbannið virðist eingöngu byggja á staðhæfingum um of hraðan akstur sem byggðar eru á upplýsingum sem lögreglan kveðst hafa aflað úr GPS-tæki úr bílaleigubíl ferðamannsins. Ekki sé réttlætanlegt að hann sæti farbanni samfleytt í nærri fjóra mánuði vegna þess að hann hafi á einhverjum tímapunkti á ferð um Suðurlandsveg ekið yfir lögmæltum hámarkshraða. Sá meinti hraðakstur sé „í engu orsakasamhengi við slysið“.

Einnig kemur fram í greinargerðinni að ferðamaðurinn telji ekki standast að hann sé settur í farbann á þeim grunni að hætta sé á að hann komist undan málsókn eða fullnustu refsingar. Hann neiti sakargiftum og telji sig hafa ekið í samræmi við aðstæður og þær merkingar sem til staðar voru.

„Orsök þess að mannsbani hlaust af slysinu er sú staðreynd að bíll ákærða lenti á hlið hins bílsins og á það eflaust þá skýringu að báðir ökumenn voru að reyna að forða slysinu án árangurs sökum plássleysis,“ segir lögmaðurinn í greinargerðinni. „Þá bendir ákærði á að merkingar við brúna eru í andstöðu við settan rétt og það kunni að hafa haft áhrif á atburðarás og orsök slyssins.“

Eva bendir einnig á að miðað við dómafordæmi í sambærilegum málum sé refsing skilorðsbundin nema í undantekningartilvikum. „Það er því ekki í samræmi við meðal­hóf eða eðlilegt samhengi á milli þess að ákærði skuli sæta farbanni í fjóra mánuði og líklegrar refsingar verði hann sakfelldur fyrir brotið,“ segir lögmaðurinn og bendir á að maðurinn hafi boðið fram allt að 10 milljónum króna í tryggingu. „Órökstutt er af hvaða sökum trygging nær ekki sama markmiði og farbannið.“

Í dómi Hæstaréttar segir hins vegar að ferðamaðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem allt að sex ára fangelsisvist liggi við. „Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem kom til Íslands sem ferðamaður og hefur engin tengsl við landið,“ segir Hæstiréttur sem kveður ekki koma til álita að maðurinn haldi frelsi sínu gegn því að setja fram tryggingu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×