Viðskipti innlent

Hagnaður Íslandsbanka dregst saman um 2 milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir Íslandsbanka vel undirbúinn undir söluferli.
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir Íslandsbanka vel undirbúinn undir söluferli. fréttablaðið/anton
Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta var 20,6 milljarðar á síðasta ári samanborið við 22,7 milljarða króna árið 2014. Í tilkynningu segir að munurinn liggi að stærstu leyti í einskiptisliðum og styrkingu íslensku krónunnar. Arðsemi eigin fjár var 10,8 prósent samanborið við 12,8 próent árið 2014.

Þá segir í tilkynningunni að grunnrekstur haldi áfram að styrkjast en hagnaður af reglulegri starfsemi var 16,2 milljarðar króna samanborið við 14,8 milljarða króna á sama tíma 2014.

Birna Einarsdóttir bankastjóri telur að árið 2015 hafi verið farsælt í rekstri Íslandsbanka og afkoma bankans umfram væntingar. „Þóknanatekjur jukust um 14,7% og vaxtatekjur um 3,3% frá fyrra ári. Grunnrekstur bankans heldur áfram að styrkjast en hagnaður af reglulegri starfsemi jókst um 9,1% frá árinu 2014,“ segir hún.

Þá rifjar Birna upp þegar drót til tíðinda á síðasta ári í eigendamálum bankans og samið var um að Íslandsbanki yrði hluti af stöðugleikaframlagi Glitnis til íslenska ríkisins. „Bankinn er vel undirbúinn fyrir söluferlið þegar nýr eigandi ákveður að hefja slíkt ferli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×