Viðskipti innlent

Landsbankinn fær 2,4 milljarða í gegnum Valitor

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hefur tekjufært í ársreikningi fyrir árið 2015 2,4 milljarða króna sem vænt fyrirframgreitt endurgjald vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe.  

Í ársreikningi bankans er rifjað upp að árið 2014 seldi bankinn á því ári 38,0% hlut sinn í eignarhaldsfélaginu Valitor Holding til Arion banka. Á árinu 2015 seldi bankinn aftur til Arion banka viðbótar 0.62% hlut sinn í félaginu sem hann hafði eignast í gegnum samruna.

„Salan fól m.a. í sér í báðum tilfellum samkomulag um viðbótar endurgjald fyrir hlutabréf bankans í Valitor. Samkomulagið byggist á valréttarsamningi milli Visa Europe og Visa Inc. Samkvæmt valréttarsamningnum samanstendur endurgjaldið af fyrirframgreiddu endurgjaldi (e. „up-front consideration“) og árangurstengdri greiðslu (e. „earn-out“),“ segir í ársreikningnum.  

Þá segir að þar sem VISA Ísland ehf, dótturfélag Valitor, á von á greiðslu frá Visa Inc. vegna valréttarsamningsins og á grundvelli upplýsinga frá Arion banka hafi bankinn tekjufært í ársreikningi þessum 2.436 milljónir króna sem vænt fyrirframgreitt endurgjald.

Eins og fram hefur komið hefur Landsbankinn sætt mikilli gagnrýni fyrir það að sambærilegt samkomulag um endurgjald hafi ekki verið gert þegar 31,2 prósent hlutur í Borgun var seldur í nóvember 2014.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×