Skoðun

Alltaf að skila af sér en skilar ekki

Erna Indriðadóttir skrifar
Hækkun eftirlaunaaldurs hefur verið á dagskrá hér á landi síðustu árin og fregnir herma að eftirlaunaaldurinn verði hækkaður í áföngum úr 67 ára í 70 ára. Þá er einnig gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn geti hætt störfum 75 ára, kjósi þeir svo. Þetta er meðal þess sem lagt er til í Péturs Blöndals nefndinni sem svo hefur verið kölluð eftir Pétri heitnum Blöndal, en nefndin á að skila af sér á næstu vikum. Þannig hefur það lengi verið, nefndin er alveg að skila af sér, en skilar engu. Tillögurnar eru alveg að koma en koma ekki. Kannski verða þær komnar þegar þessi grein birtist, en það er líklega óskhyggja.

Sagt upp vegna skipulagsbreytinga

Það er mörgum ráðgáta sem nú eru að komast á eftirlaun, hvernig þeir eigi að lifa fram til sjötugs ef eftirlaunaaldurinn verður hækkaður. Einfaldlega vegna þess að fólk sem er komið um sextugt virðist eiga í erfiðleikum með að fá vinnu, hafi það einhverra hluta vegna misst starfið. Sumir misstu vinnuna í kjölfar hrunsins eða vegna hagræðinga og skipulagsbreytinga á gamla vinnustaðnum. Nýlegt dæmi er frá Veðurstofu Íslands þar sem sex elstu starfsmennirnir urðu allir að víkja vegna skipulagsbreytinga. Eftir áratugastarf var ekkert verkefni að finna fyrir þetta fólk á Veðurstofunni.

Þarf hugarfarsbreytingu

Það er ljóst að eigi hærri eftirlaunaaldur að ganga upp, þarf hugarfarsbreytingu á íslenskum vinnumarkaði. Það er enginn að tala um að stjórnendur í opinberum stofnunum eða fyrirtækjum á einkamarkaði eigi að halda sínum stjórnunarstörfum til sjötugs eða 75 ára. En það þarf að gera þeim kleift að breyta til, sinna ákveðnum verkefnum eða flytjast til í starfi. Þá þarf að setja fram raunhæfa áætlun um það, hvernig á að mæta þeim hópum eftirlaunamanna sem geta ekki lifað af eftirlaununum og enginn vill ráða í vinnu þótt þeir séu við ágæta heilsu. Það þarf að hugsa málin upp á nýtt.

Störf fyrir eldri starfsmenn

Þess eru dæmi að verslanir hafi ráðið í vinnu fólk sem er komið á eftirlaun. Störf í ferðaþjónustunni við móttöku ferðamanna, gætu einnig verið ákjósanleg hlutastörf fyrir eldri starfsmenn. Þess eru reyndar dæmi að fólk á eftirlaunum starfi sem leiðsögumenn fyrir erlenda ferðamenn. Störf í barnagæslu og á frístundaheimilum gætu líka verið heppileg fyrir eldra fólk. Á mörgum frístundaheimilum vinnur kornungt fólk, en kennarar á eftirlaunum gætu aðstoðað í hlutastörfum, til dæmis við að hjálpa börnunum með heimanámið.

Það má áreiðanlega velta upp miklu fleiri hugmyndum og það verðum við að gera. Við höfum sem þjóð, ekki efni á því að hafna þeirri þekkingu og reynslu sem eldra fólk býr yfir.




Skoðun

Sjá meira


×