Skoðun

Einn allsherjar misskilningur?

Vilberg Ólafsson skrifar
Um tíma héldu margir að íslenskir bankamenn væru slíkir snillingar að erlendar þjóðir gætu ýmislegt lært af þeim. Erlendir sjónvarpsmenn eins og t.d. Richard Quest og stórblöð á borð við Financial Times birtu viðtöl við bankamennina þar sem þeir sögðu efnislega: „Ísland – bezt í heimi“ og hve erlendar þjóðir gætu lært mikið af bankamönnunum. Innlendir fjölmiðlar dásömuðu þá einnig og héldu hvergi aftur af sér í að gera sigrum þeirra góð skil.

Hver man ekki eftir húrrahrópum þjóðarinnar þegar hver útrásaryfirtakan á eftir annarri var tilkynnt? „Heimsmet í vexti,“ sagði einhver.

Sjö árum eftir fall bankanna efast ekki nokkur maður um að þetta var einn allsherjar misskilningur.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott.

„Ísland - bezt í heimi!“

Nú hefur komið í ljós að Íslendingar eru þrátt fyrir allt bestir í heimi – ekki í bankarekstri heldur í saksóknum. Erlendir sjónvarpsmenn eins og t.d. Michael Moore og stórblöð á borð við Financial Times hafa að undanförnu birt viðtöl við sérstakan saksóknara þar sem hann segir efnislega: „Ísland bezt í heimi“ og hve erlendar þjóðir geti lært mikið af Íslendingum. Innlendir fjölmiðlar dásama saksóknara einnig og halda hvergi aftur af sér í að gera sigrum hans í dómsölum góð skil. Ég heyri húrrahróp þjóðar minnar hingað til Danmerkur þegar hver þungi fangelsisdómurinn á eftir öðrum er tilkynntur. „Heimsmet í fangelsisdómum,“ er mér sagt.

Nú er bara að vona að þessi svo að segja nýtilkomna snilld okkar í saksóknum sé komin til að vera, að þetta sé ekki aftur einn allsherjar misskilningur.




Skoðun

Sjá meira


×