Skoðun

Af brennivíni og skipulagsmálum

Guðmundur J. Guðmundsson skrifar
Þessa dagana eru það tvö mál sem einkum er deilt um á kaffistofum, í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum, annars vegar stóra brennivínsmálið og hins vegar skipulagið á M.R. reitum í Þingholtunum.

Stóra brennivínsmálið gengur eins og allir vita út á að hópur ungra Sjálfstæðismanna telur það eitt helsta frelsismál þjóðarinnar að geta keypt brennivín á hverju götuhorni. Annar ámóta harðsnúinn hópur er þessu andsnúinn og hafa hvorir tveggja nokkuð að iðja við að setja fram rök með og á móti. Nú hefur enn einu sinni verið lagt fram á þingi frumvarp um þetta mál og hefur það þegar fengið mikla og nokkuð ítarlega umræðu og því miður stefnir í að þarna sé í uppsiglingu enn eitt málið þar sem málþóf og stóryrði tefja þingstörf.

Nú er það svo að þetta mál má leysa á einfaldan hátt. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gæti samið við samherja sína jafnt sem andstæðinga á þingi um að leggja málið í þjóðaratkvæði, samhliða forsetakosningum í sumar, því fá mál eru betur til þess fallin að afgreiða með þeim hætti en einmitt þetta. Sá sem þetta ritar er handviss um að þingmaðurinn ungi fengi góðar undirtektir við þessa lausn í báðum hópum, sóma af málinu öllu og talinn hafa sýnt stjórnvisku. Ef samþykkt yrði að gefa sölu á brennivíni frjálsa myndu þau ráðuneyti sem málið varðar hrinda því í framkvæmd í fullu umboði þjóðarinnar en ef frumvarpið hins vegar félli þá væri það úr sögunni næstu áratugina og þing og þjóð gætu snúið sér að öðrum og þarfari verkefnum.

Öllu snúnara mál

Hitt málið er öllu snúnara. Þar deila einkum tveir aðilar, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem vill byggja á lóð Menntaskólansog rífa gamla KFUM húsið sem nú er um 110 ára gamalt og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagsfræðingur og áhugamaður um skipulag miðbæjarins, sem vill vernda húsið og hafa hvorir tveggju um sig flokk manna. Þeir nafnar takast hart á og þegar þetta er skrifað er óvíst hvor hefur frá tíðindum að segja.

Nú er það svo með þetta mál að þar er líka til einföld lausn þar sem flestir gætu gengið sáttir frá borði. Skipulagsfræðingurinn gæti einfaldlega lagt til við forsætisráðherra að flytja þann hluta KFUM-hússins sem elstur er upp í lóðina við Amtmannsstíginn og endurreisa það þar upp í upprunalegri mynd á góðum steinsteyptum kjallara. Í því mætti hugsanlega fá átta til níu kennslustofur og Reykvíkingar myndu losna við það hús sem ætlunin er að byggja á þessum stað og verður, ef marka má teikningar, seint til prýði. Síðan má byggja eftir hentugleikum inni í reitnum þar sem KFUM-húsið stóð áður. Innsti hluti reitsins væri þá umkringdur fallegum gömlum húsum og enginn veitti því athygli hvað þar væri fyrir innan.

Bæði eru þessi mál þannig vaxin að þau má auðveldlega leysa þannig að allir ganga þokkalega sáttir frá borði en svo er auðvitað líka hægt að fara íslensku leiðina, böðlast áfram af alefli, með stóryrðum og helst lögsóknum og málþófi. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að það verði raunin.




Skoðun

Sjá meira


×