Viðskipti innlent

Reitir högnuðust um 7,4 milljarða í fyrra

Samúel Karl Ólason skrifar
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Reitir fasteignafélag skilaði 7,397 milljörðum króna í hagnað í fyrra. Samkvæmt ársreikningum félagsins jukust tekjur þess um 4,8 prósent á milli ára. Stjórn Reita leggur til að rúmur milljarður verði greiddur í arð.

„Afkoma Reita á árinu 2015 og arðsemi er góð,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita í tilkynningu. „Rekstrarhagnaður ársins var í takti við væntingar stjórnenda og útgefnar áætlanir um afkomu, en til viðbótar hækkaði virði eigna félagsins jafnt og þétt yfir árið. Arðsemi eigin fjár er um 17 prósent á árinu og arðsemi tekjuberandi eigna um 6,2 prósent.“

Enn fremur segir hann að 2015 hafi verið fyrsta rekstrarár félagsins eftir mikla endurskipulagningu efnahagsreiknings þess. Endurfjármögnun hafi gefið félaginu tækifæri til að taka stór skref í eignasafns Reita með kaupum og sölum eigna og eignasafna.

„Helst ber að nefna í því samhengi kaup á dótturfélaginu Reitir Hótel Ísland sem á fasteignina Ármúla 9 fyrir um 3.800 milljónir króna og kaup á nokkrum fasteignafélögum í rekstri Stefnis að heildarvirði 17.980 milljónir króna, en þau viðskipti eru háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.“

Leigutekjur ársins voru 8.927 milljónir króna en 8.515 milljónir 2014. Rekstrarkostnaður fjárfestingaeigna var 2.120 milljónir sem er svipað og árið áður. Eigið fé Reita er tæpir 47 milljarðar króna.

Frekari upplýsingar má finna á vef Reita.


Tengdar fréttir

Reitir kaupa Skútuvog 3

Áætlaðar leigutekjur af Skútuvogi 3 nema rúmlega 67 milljónum króna á ársgrundvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×