Viðskipti erlent

Tak­markaðar fram­farir í PISA könnunum undan­farinn ára­tug

Sæunn Gísladóttir skrifar
Íslenskum börnum hefur hrakað í PISA-könnuninni frá árinu 2003 til 2012.
Íslenskum börnum hefur hrakað í PISA-könnuninni frá árinu 2003 til 2012. vísir/hag

Flest lönd hafa tekið litlum framförum í því að hjálpa þeim nemendum sem standa sig verst í lestri, stærðfræði og náttúrulæsi í PISA-könnunum á síðasta áratug. Íslenskum nemendum hefur hrakað í könnuninni. Forstjóri Menntastofnunar segir nú þegar verið að vinna markvisst að því að bæta niðurstöðu íslenskra barna fyrir könnunina 2018.



Samkvæmt nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, Low Performance Students: Why they fall behind and how to help them succeed, sem kom út í síðustu viku hefur hlutfall þeirra nemenda sem standa sig verst í PISA-könnunum batnað lítið milli áranna 2003 og 2012 og í raun versnað þegar kemur að stærðfræði. Þetta þýðir að of margt ungt fólk er að útskrifast án þess að vera með þau tól sem þörf er á í nútímasamfélagi og vinnustöðum, sem hefur neikvæð áhrif á framtíð þeirra og langtíma hagvöxt.



Í skýrslunni segir að 4,5 milljónir fimmtán ára barna í OECD-löndum, eða eitt af hverjum fjórum, nái ekki lágmarksviðmiði í könnuninni. Í fáum löndum hafa nemendur sem standa sig illa náð að taka framförum og hlutfall þeirra sem standa sig illa hefur hækkað í sumum löndum. Fjölbreytt lönd, meðal annars Brasilía, Þýskaland, Ítalía, Mexíkó, Rússland, og Tyrkland, hafa þó náð að lækka hlutfall þeirra sem standa sig illa í stærðfræði milli áranna 2003 og 2012. Því er ljóst að framfarir eru mögulegar ef viljinn er fyrir hendi.

Í skýrslunni er haft eftir Andreas Schleicher, forstöðumanni menntunarsviðs OECD, að félagslegur og efnahagslegur ávinningur af því að takast á við slæma frammistöðu sé mun meiri en einhver kostnaður. Því sé mikilvægt að það sé í forgangi.



Ísland er meðal þeirra landa þar sem hlutfall þeirra sem standa sig illa hefur farið hækkandi. Árið 2012 var hlutfallið 21,5 prósent í stærðfræðihlutanum og hafði hækkað um 6,5 prósent frá 2003. Í lestri var það 21 prósent og var 2,5 prósentum hærra en 2003. Í náttúrulæsi hækkaði hlutfallið um 3,4 prósent og mældist 24 prósent árið 2012.

Arnór Guðmundsson

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir menn meðvitaða um ástandið og að þetta sé grundvöllur til stefnumótunar og aðgerða sem nú séu í gangi. „Þjóðarátakið um læsi snýst að stórum hluta um þetta. Við erum að setja það markmið að lágmarksviðmið í lestri, að geta lesið sér til gagns, fari úr 79 prósentum upp í 90 prósent fyrir næstu PISA-könnun árið 2018. Við höfum verið að skoða þetta líka varðandi stærðfræðina.“



Arnór tekur undir að þetta sé stórt efnahagsmál. „Þetta tengist síðan framgangi í framhaldsskóla. Nemendur sem ná ekki þessari grundvallarfærni í grunnskólum detta út úr framhaldsskóla, eða ná ekki að ljúka honum nema á löngum tíma. Svo er þetta spurning um þátttöku í samfélaginu og ágætis vísbending líka varðandi heilbrigði og afbrot og annað sem hangir saman við menntun,“ segir Arnór.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×