Í ábendingum frá Bónus vegna komu Costco hingað til lands kemur fram nokkur gagnrýni á dekkjaverkstæði sem skipulagstillaga við Kauptún í Garðabæ gerir ráð fyrir að verði á svæðinu, en bandarískja verslunarkeðjan hyggst reka umrætt verkstæði.
Costco verður við hlið Bónus samkvæmt skipulagsbreytingum sem gera á við Kauptún, en áætlað er að verslunin opni síðar á þessu ári. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar í gær var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Kauptúns vegna lóða númer 1, 2 og 3 og nýrri lóð fyrir dælustöð.
Minnisblað frá Finni Árnasyni, forstjóra Haga, með ábendingum Bónus var lagt fyrir fund bæjarráðs, en í því segir meðal annars um dekkjaverkstæði Costco:
„Talið er með öllu óásættanlegt að setja eitt stærsta hjólbarðaverkstæði landsins nánast í anddyri Bónus. Engan vegin fari saman að reka matvöruverslun og dekkjaverkstæði eða bifreiðaþjónustu í því samneyti sem skipulagstillagan gerir ráð fyrir.“
Þá er það jafnframt rakið að leigusamningur Bónus tiltaki sérstaklega að um „verslunarmiðstöð“ sé að ræða við Kauptún og að dekkjaverkstæði eða bifreiðaþjónusta með þeim óþrifnaði og lykt sem því fylgir eigi hvorki heima í „verslunarmiðstöð“ né við anddyri matvöruverslunar.
Forhýsi Costco ekki gert til að fela Bónus
Í tillögu að viðbrögðum skipulagsnefndar við þessari ábendingu Bónus segir að starfsemi á borð við dekkjaverkstæði sé almennt leyfð á verslunar-og þjónustusvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Þá séu fordæmi fyrir svipaðri starfsemi á svæðinu, það er í Kauptúni 6.
Þá er jafnframt gerð athugasemd við forhýsi sem Costco áformar að reisa. Telur Bónus að „forhýsið sé út fyrir núverandi byggingarreit, umfram það sem hafi komið fram áður og skyggi með öllu á Bónus. Með öllu óásættanlegt sé að reynt sé að fela Bónus með þeim hætti sem skipulagstillagan gerir ráð fyrir; auknu byggingarmagni á þessum stað.“
Í tillögu að viðbrögðum skipulagsnefndar við þessu kemur fram að forhýsi Costco sé ekki gert til þess að fela Bónus „heldur til þess að laga bygginguna betur að þörfum nýrrar verslunar og afmarka nýjan aðalinngang hennar.“ Þá segir jafnframt að forhýsið fari ekki út fyrir núverandi byggingarreit.
Þó geri sú sveigja sem nú sé á húsinu það að verkm að Bónus lendi í meira hvarfi en annars hefði orðið vegna forhýsisins en vilji sé til þess að koma til móts við verslunina til dæmis „með því að heimila skilti á lóðinni.“
„Með öllu óásættanlegt að setja eitt stærsta hjólbarðaverkstæði landsins nánast í anddyri Bónus“

Tengdar fréttir

Telur að Costco muni frekar opna seinni part árs 2016
Bæjarstjóri Garðabæjar segist frekar trúa því að Costco opni seinni part, en fyrri part árs 2016.

Costco byrjar að ráða starfsmenn í upphafi næsta árs
Costco ætlar að ráða 160 starfsmenn á Íslandi til að byrja með en vonast til að þeir verði orðnir 250 að þremur árum liðnum.

Costco kaupir landsvæði undir verslun og bensínstöð
Vöruhús Costco í Kauptúni mun bjóða upp á þjónustu á borð við apótek, sölu sjóntækja og sjónmælingu, dekkjasölu og dekkjaverkstæði, bakarí og sælkeraverslun.

Costco opnar verslun í Kauptúni
Bandaríski smásölurisinn hyggst kaupa 14.000 fermetra verslunarhúsnæði i í Garðabæ og ætlar að opna þar verslun fyrir næstu jól.