Körfubolti

Curry fór hamförum í enn einum heimasigri Golden State | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Curry skoraði tvær körfur fyrir aftan miðju gegn Indiana.
Curry skoraði tvær körfur fyrir aftan miðju gegn Indiana. vísir/getty
Níu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, sneri aftur á bekkinn þegar meistararnir unnu 12 stiga sigur, 122-110, á Indiana Pacers. Þetta var 38. sigur Golden State á heimavelli í röð.

Steph Curry var í miklum ham í leiknum og skoraði tvær körfur með skotum fyrir aftan miðju. Curry endaði með 39 stig, 10 fráköst og 12 stoðsendingar. Draymond Green átti sömuleiðis flottan leik með 22 stig og 11 fráköst.

San Antonio Spurs er óstöðvandi þessa dagana og vann sinn 13. leik í röð þegar liðið sótti Los Angeles Lakers heim í nótt. Lokatölur 95-108, San Antonio í vil.

Manu Ginobili skoraði 20 stig fyrir San Antonio en allir leikmenn liðsins nema einn komust á blað í leiknum.

D'Angelo Russell var stigahæstur í liði Lakers með 18 stig en Kobe Bryant skoraði aðeins fimm stig í leiknum. Hann hefur aldrei skorað jafn lítið í leik gegn San Antonio á ferlinum.

Chris Paul skoraði 16 stig og gaf 13 stoðsendingar þegar Los Angeles Clippers bar sigurorð af New York Knicks, 88-116, í Madison Square Garden í nótt.

DeAndre Jordan var stigahæstur í liði Clippers með 20 stig en liðið hefur unnið átta af síðustu 10 leikjum sínum og er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

Úrslitin í nótt:

Golden State 122-110 Indiana

LA Lakers 95-108 San Antonio

NY Knicks 88-116 LA Clippers

Orlando 116-120 Charlotte

Boston 110-101 Chicago

Brooklyn 86-108 Utah

Toronto 101-81 Miami

Houston 102-98 Milwaukee

Dallas 106-109 Oklahoma

Það breytir engu hversu langt færið er, Curry skorar samt DeAndre Jordan finnst gaman að troða James Harden átti góðan leik gegn Milwaukee
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×