Viðskipti innlent

Bankastjóri segir gremju í þjóðfélaginu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fólkið sem var mætt í höfuðstöðvar Landsbankans í gær frábað sér spillingu.
Fólkið sem var mætt í höfuðstöðvar Landsbankans í gær frábað sér spillingu. vísir/stefán
Mikill hiti var í hópi mótmælenda sem komu saman fyrir utan höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti á hádegi í gær til að mótmæla sölu á 31,2 prósenta eignarhlut bankans í Borgun.

Bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálssonar, hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir söluna eftir að í ljós kom að Borgun gæti átt von á greiðslum vegna valréttar Visa Inc. á Visa Europe.

Mótmælendur báðu Steinþór um að svara fyrir þessa sölu. „Ætlarðu að segja mér að þú hafir ekki vitað að Borgun myndi græða svona mikið eftir eitt ár,“ var Steinþór spurður.

„Málið er það að við seljum á verði sem endurspeglar mikinn vöxt þannig að við erum að fá framtíðarávinning inn í söluna,“ sagði Steinþór og heyrðist hrópað „lygi“ umsvifalaust úr hópnum. „Ertu ekki vanhæfur fyrst þú klúðraðir þessu svona?“ var Steinþór spurður. Steinþór sagðist í samtali við Stöð 2 skilja reiði þeirra sem mótmæltu.

„Það er náttúrulega mikil gremja í þjóðfélaginu með ýmislegt sem hefur aflaga farið á undanförnum árum. Traustið er í molum og þarna sýnist þeim að hlutir hafi brotnað. Það byggist á því að þau telja að þarna hafi einhverjir milljarðar verið á ferðinni,“ sagði Steinþór í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í gær. Bankastjórinn segist telja það fjarri lagi að milljarðar hafi verið þarna undir. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×