Viðskipti innlent

Netflix ætlar að loka á flakk milli landa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mismunandi er eftir löndum hvaða bíómyndir og sjónvarpsþættir eru aðgengilegir á Netflix en hægt hefur verið að komast framhjá þessum takmörkunum með því að nota til dæmis proxy-þjóna og VPN-neti.
Mismunandi er eftir löndum hvaða bíómyndir og sjónvarpsþættir eru aðgengilegir á Netflix en hægt hefur verið að komast framhjá þessum takmörkunum með því að nota til dæmis proxy-þjóna og VPN-neti. vísir/getty
Netflix ætlar að koma í veg fyrir að notendur efnisveitunnar geti flakkað á milli landa til að hafa aðgang að öðru efni en þeir hafa í heimalandi sínu. Mismunandi er eftir löndum hvaða bíómyndir og sjónvarpsþættir eru aðgengilegir á Netflix en hægt hefur verið að komast framhjá þessum takmörkunum með því að nota til dæmis proxy-þjóna og VPN-neti. Er um að ræða rétthafamál þar sem Netflix kaupir sýningarréttinn að tilteknum þáttum og kvikmyndum í hverju landi fyrir sig.

Fjallað er um málið á vef Guardian. Þar kemur fram að fyrir ári síðan leiddi könnun GlobalWebIndex í ljós að það væri gríðarlega vinsælt að nota proxy-þjóna og aðrar aðferðir til að nálgast efni á Netflix þó að það sé bannað samkvæmt notendaskilmálum efnisveitunnar.

Netflix varð aðgengilegt á Íslandi án krókaleiða þann 6. janúar auk þess sem efnisveitan opnaði líka í fjölda annarra landa. Þúsundir íslenskra heimila voru þó með Netflix áður og kom meðal annars fram í könnun MMR í fyrra að 18,4 prósent heimila væru með áskrift að efnisveitunni.

Mjög algengt var að notendur væru með aðganginn skráðan þannig að það væri eins og viðkomandi byggi í Bandaríkjunum, og gat þannig horft á allt það efni sem aðgengilegt var í gegnum Netflix þar.

Gera má ráð fyrir að íslenskum notendum efnisveitunnar hafi fjölgað síðustu daga en nokkur munur er á því efni sem aðgengilegt er á Netflix hér á landi og til dæmis í Bandaríkjunum. Því hafa einhverjir ef til vill ekki breytt aðgangnum sínum úr þeim bandaríska yfir í þann íslenska en takist Netflix að loka fyrir flakkið á milli landsvæða þyrftu allir íslenskir notendur að skrá sig fyrir efnisveitunni hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×