Innlent

Hundrað þúsund örnefni í gagnagrunni

Svavar Hávarðsson skrifar
Um 10.000 örnefni hafa bæst í grunninn á hverju ári.
Um 10.000 örnefni hafa bæst í grunninn á hverju ári. mynd/LMÍ
Sá áfangi náðist hjá Landmælingum Íslands í desember að yfir 100.000 örnefni höfðu verið staðsett og skráð í örnefnagrunn stofnunarinnar. Mikið átak hefur verið í skráningu örnefna á undanförnum áratug og hafa um 10.000 örnefni bæst í grunninn á hverju ári. Tveir starfsmenn sinna þessari skráningu eingöngu.

Þetta kemur fram í Kvarðanum, fréttabréfi LMÍ.

Þar segir að stór hluti skráningarinnar sé unninn af áhugafólki utan stofnunarinnar. Þar er um að ræða einstaklinga og félög sem hafa sérþekkingu á ákveðnu svæði og skrá, staðsetja eða hjálpa til við skráningu og staðsetningu örnefna beint ofan í grunn Landmælinga Íslands í gegnum netið.

Til að tryggja rétta staðsetningu örnefna er þörf fyrir nákvæm myndgögn og undanfarin ár hefur stofnunin notað loftmyndir frá Samsýn og ýmis gervitunglagögn í eigu stofnunarinnar. Í byrjun vetrar bættust við loftmyndir frá Loftmyndum ehf. sem bakgrunnsgögn við skráningu og opnar sú viðbót á nákvæma skráningu örnefna á öllu landinu.

Samstarf við heimildarmenn víða um land við skráningu örnefna eru Landmælingum mikilvæg, og er nokkurra þeirra sérstaklega getið í Kvarðanum. Félags aldraðra í Borgarfirði er sérstaklega getið auk tveggja einstaklinga; Gunnþóru Gunnarsdóttur frá Hnappavöllum sem skráði og staðsetti um 600 örnefni og Sigurgeirs Jónssonar á Fagurhólsmýri sem skráði og staðsetti um 800 örnefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×