Viðskipti innlent

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði 240 styrkjum árið 2015

Atli Ísleifsson skrifar
Sótt var um að þýða íslenskar bókmenntir á 27 tungumál.
Sótt var um að þýða íslenskar bókmenntir á 27 tungumál. Vísir/Valli
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta úthlutaði á síðasta ári um 240 styrkjum í átta flokkum. Heildarsumma úthlutunar allra styrkja var tæpar 60 milljónir króna fyrir árið 2015. 

Í tilkynningu segir að sótt hafi verið um að þýða íslenskar bókmenntir á 27 tungumál, auk þess að aldrei hafi borist fleiri umsóknir um Nýræktarstyrki Miðstöðvarinnar.

Þar segir að styrkir til þýðinga á erlend mál hafi aldrei verið fleiri, en á síðasta ári voru níutíu umsóknir frá erlendum útgefendum til afgreiðslu, þar af sextán til þýðinga á íslenskum verkum á norræn tungumál. Það er aukning frá fyrra ári, en þá voru umsóknir um þýðingar á erlend mál 82 talsins.

„Til úthlutunar á árinu voru 15,6 milljónir króna auk um 6,6 milljóna króna sem Norræna ráðherranefndin leggur til þýðinga úr íslensku á norræn tungumál. Veittir voru samtals styrkir til 86 þýðinga úr íslensku og hafa styrkir til erlendra þýðinga aldrei verið fleiri.

Metfjöldi umsókna um Nýræktarstyrkina

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði 2 milljónum króna í Nýræktarstyrki 2015 og barst 51 umsókn um Nýræktarstyrki frá 45 aðilum og það er metfjöldi umsókna. Sex höfundar hlutu styrki að þessu sinni til útgáfu fimm verka. Styrkupphæð var 400.000 kr. og hækkaði um 150.000 milli ára.

Ferðastyrkir höfunda

40 umsóknir bárust um ferðastyrki á árinu og voru veittir 36 styrkir að upphæð samtals 3.293.000 kr. Svipaður fjöldi umsókna barst á árinu 2014, eða 47 umsóknir og var veittur 41 styrkur. Það ár var rúmlega 40% aukning í umsóknum í þessum flokki milli ára.

Styrkir til útgáfu og þýðinga á íslensku

Á árinu 2015 bárust 57 umsóknir um útgáfustyrki frá 33 aðilum og nemur heildarupphæðin sem sótt var um 50.5 millj.kr. Úthlutað var 20.6 millj.kr. til 45 útgáfuverkefna.

Til samanburðar má geta þess að á árinu 2014 barst 61 umsókn um útgáfustyrki frá 30 aðilum og var þá úthlutað 15 milljónum króna til 31 útgáfuverkefnis, það hefur því orðið svolítil fækkun umsókna í þessum flokki milli ára.

Sama gildir um umsóknir til þýðinga á íslensku; árið 2015 var úthlutað rúmlega 13.7 milljónum króna til 33 þýðingaverkefna í tveimur úthlutunum, mars og nóvember en umsóknir voru 41. Til samanburðar voru umsóknir um styrki til þýðinga á íslensku voru 56 á árinu 2014 og þá var úthlutað 9 milljónum króna til þýðinga á 30 verkum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×