Viðskipti innlent

Vill heimila lán sem Seðlabankinn telur „verulega ógn“ stafa af

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, freistar þess nú í annað sinn með lagafrumvarpi að heimila erlend lán til einstaklinga og lögaðila sem hafa ekki tekjur í öðru en krónum. Seðlabankinn hefur hefur ítrekað varað við því að lántökur til þeirra sem geta ekki varið sig fyrir gengissveiflum verði heimilaðar, en þeim viðvörunarorðum hefur ekki verið sinnt.

Fjármálaráðherra lagði frumvarp um sama efni á síðasta þingi en það náði ekki fram að ganga. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun að fortakslaust bann við erlendum lánum væri brot á EES-samningnum. Framlagning frumvarpsins er liður í því að bregðast við ákvörðun ESA. Það skal áréttað að ESA taldi „fortakslaust bann“ ekki ganga. Það þýðir ekki að stofnunin telji að á Íslandi geti ekki verið nokkurs konar takmarkanir á gjaldeyrislánum.

Verði frumvarp Bjarna að lögum verður opnað á lán í erlendri mynt til einstaklinga sem hafa eingöngu tekjur í krónum og geta ekki varið sig fyrir gengissveiflum. Í raun er bara um endurtekið efni að ræða frá gjaldeyris- og bankahruninu. Þá er ábyrgð vegna banns við slíkum lánum til einstaklinga, sem geta ekki varið sig fyrir gengissveiflum, færð frá löggjafanum til embættismanna Seðlabankans.

Gott fyrir sum fyrirtæki

Fyrir þau fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendri mynt, svo sem útflutningsfyrirtæki eða aðila í ferðaþjónustu, getur verið eðlilegt og skynsamlegt að hafa lán í erlendri mynt. Ef gengi krónunnar styrkist og tekjur lækka er hagstætt að skuldir lækki á sama tíma. Við veikingu krónunnar þolir viðkomandi fyrirtæki aftur hækkun skulda þar sem tekjur hækka. Þetta gildir ekki um einstakling sem hefur tekjur í krónum. Við snögglegt gengisfall situr hann uppi með lán sem hefur hækkað mikið og hefur ekki peninga til að verja sig fyrir gengissveiflum, til dæmis með afleiðusamningum. Þetta er það sem þúsundir einstaklinga lentu í í banka- og gjaldeyrishruninu.

Kerfinu í heild stafar „veruleg ógn af“ þessum lánum

Það er fróðlegt að skoða umsagnir og all nokkur minnisblöð frá Seðlabankanum sem vara eindregið og ítrekað við því að lántökur til lántaka sem geta ekki varið sig fyrir gengissveiflum verði heimilaðar.

Í einu minnisblaði Seðlabankans segir um lán í erlendum gjaldmiðlum til óvarinna einstaklinga og lögaðila:

„Slíkar lánveitingar eru ekki aðeins varasamar fyrir einstaka lántaka sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu heldur getur einstökum lánveitendum og fjármálakerfinu í heild stafað veruleg ógn af ef óvarlega er farið í útlánastarfsemi af þessum toga og ef gengisáhætta raungerist.“

Seðlabankinn hafði svo miklar áhyggjur af frumvarpinu að hann sá sig knúinn til að svara athugasemdum fjármálaráðuneytisins alls sjö sinnum. Það hlýtur að teljast fáheyrt í lagasetningu hér á landi. Í síðasta minnisblaði sínu segist Seðlabanki tilbúinn að leyfa óvarðar lántökur ef hann fái alveg óskoraða heimild til að banna þær.

Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Er ekki löggjafinn að skella skollaeyrum við athugasemdum Seðlabankans í þessu máli ef frumvarpið verður að lögum? „Þetta eru vissulega vonbrigði vegna þess að það er áhætta fyrir lántaka að taka lán í annarri mynt en hann hefur tekjur og eignir í. En það grefur líka undan fjármálastöðugleika, eins og kemur fram í umsögnum bæði Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, það grefur undan stöðugleika gjaldmiðilsins og það getur líka grafið undan peningastefnunni,“ segir Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem er á móti frumvarpi ráðherrans í núverandi mynd.

Frosti segir þetta líka spurningu um misskiptinguna sem af þessu hlýst. „Þetta er semsagt hópur sem væntanlega hefur mjög miklar tekjur í krónum sem getur gert þetta. Allur almenningur getur ekki gert það en hann þarf hins vegar að lifa við áhættuna sem þetta skapar. Þá er spurningin hvernig þjónar það almannahagsmunum að innleiða slíkt ákvæði?“ 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
2,13
95
511.938
SJOVA
0,33
3
98.930
VIS
0,14
8
155.374
SKEL
0
2
1.492

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
-1,81
6
80.980
ARION
-1,78
30
830.706
MAREL
-1,74
33
790.237
SIMINN
-1,6
12
154.150
ICESEA
-1,6
37
280.301
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.