Innlent

Lögreglustjóri leitar stuðnings meðal femínista

Jakob Bjarnar skrifar
Sigríður Björk lögreglustjóri nýtur stuðnings femínista í hópnum Karlar gera merkilega hluti.
Sigríður Björk lögreglustjóri nýtur stuðnings femínista í hópnum Karlar gera merkilega hluti.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, spyr inná lokuðum hópi femínista hvers vegna konur geti ekki lært að vera óumdeildar? Gerður er góður rómur af þessari athugasemd lögreglustjórans.

Víst er að gustað hefur um Sigríði Björk eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá innanríkisráðherra, skipaði hana í embætti.

Nýjasta málið sem snýr að lögreglustjóranum og ætlar að reynast henni örðugt er úrskurður innanríkisráðuneytisins, þar sem kveður á um að Sigríði Björk hafi ekki verið heimilt að víkja lögreglufulltrúa tímabundið úr starfi í kjölfar þess að héraðssaksóknari hóf rannsókn á ætluðum brotum mannsins í starfi.

Skjáskot úr hópnum Karlar gera merkilega hluti, en svo virðist sem að lögreglustjóri leiti stuðnings þangað, í hremmingum sínum.
Sigríður Björk leitar nú stuðnings, með óbeinum hætti, í lokuðum hópi femínista sem ber hið íróníska nafn: „Karlar gera merkilega hluti“. Sigríður skrifar á þann vettvang:

„Soldið erfitt að vera með umdeilda konu í frontinum. Af hverju geta konur ekki lært að vera óumdeildar eins og karlarnir. Datt þetta innlegg Sóleyjar Tómasdóttur í hug við myndina góðu frá 2014.“ Sigríður Björk lætur broskall sem blikkar auga fylgja.

Með birtir Sigríður Björk mynd af foringjum innan lögreglunnar og þá bregður svo við að í þeim hópi eru einungis karlar. Fjölmargir femínistar, með Sóley Tómasdóttur í broddi fylkingar, rétta upp þumal og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir segir: „Pant vera með umdeilda konu í frontinum ANY DAY.“

Í hópnum „Karlar gera merkilega hluti“ eru 254 femínistar, ýmsar valda- og áhrifamiklar konur auk nokkurra karla en stjórnandi hópsins er Sóley Tómasdóttir forseti borgarstjórnar. Innleggið sem Sigríður Björk vísar til er einmitt glósa á fyrirsögn sem birtist á mbl.is, þar sem fjallað er um verðandi forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, undir fyrirsögninni: „Umdeild en nýtur virðingar“. Sóley segir að það sé „Soldið erfitt að vera með umdeilda konu í frontinum. Af hverju geta konur ekki lært að vera óumdeildar eins og karlarnir?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×