Skoðun

Frjálsa verslun með áfengi

Guðmundur Edgarsson skrifar
Orðið lýðheilsa er vandmeðfarið. Eins fallega og það hljómar hefur notkun þess meðal ýmissa stjórnmálamanna og álitsgjafa úr háskólasamfélaginu gjarnan falið í sér visst yfirlæti, jafnvel stjórnlyndi, þegar látið er sem heilsa og líðan einstaklingsins sé ekki lengur hans mál eingöngu heldur allrar þjóðarinnar. Alls kyns tölfræði um heilsufar fólks eftir aldri, kyni, stéttarstöðu, tekjum, búsetu, o.s.frv. er þá iðulega beitt til að stýra hegðun og neysluvenjum fólks.

Lýðheilsa hvað?

Nú er um það rætt að leyfa fólki að kaupa vín í næstu kjörbúð. Rökin eru tvenns konar. Áfengi er lögleg neysluvara og því ætti fólk að geta nálgast þá vöru á sama hátt og aðra. Það er svo annar handleggur að sumir höndla áfengi verr en aðrir. Það réttlætir hins vegar ekki valdbeitingu gagnvart þeim yfirgnæfandi meirihluta fólks sem kann með áfengi að fara. Sumir fara offari í sykurneyslu, aðrir í lántökum, einhverjir ánetjast tölvuleikjum. Á þá sífellt að leggja stein í götu þeirra sem gæta hófs vegna fáeinna einstaklinga sem kunna ekki fótum sínum forráð? Í nafni lýðheilsu?

Hin rökin eru þau að ríkið eigi ekki að standa í verslunarrekstri. Hvers vegna ætti ríkið að reka vínbúð frekar en bakarí eða fataverslun? Eitt helsta verkefni stjórnmálamanna ætti að vera að minnka völd og umsvif ríkisins. Verði ríkisstofnun eins og ÁTVR færð yfir til markaðarins yrði það a.m.k. eitt hænuskref í þá átt. En þá koma talsmenn síaukinna opinberra afskipta og fara með lýðheilsuræðuna. Áfram skuli ríkið reka vínbúðir því annars fari áfengisneysla landsmanna úr böndunum – og sjálf lýðheilsan í húfi!

Leið helsis eða frelsis

Til eru tvær leiðir til að vinna gegn óhófi í mat og drykk. Önnur byggir á miðstýringu, lögþvingunum og sköttum. Hin byggir á friði og trú á einstaklingsfrelsið, þ.e. að veita stuðning í formi hvatningar og upplýsingagjafar fremur en boða og banna. Ríkishyggjufólk og fylgismenn miðstýrðrar þjóðfélagsverkfræði velja gjarnan fyrri kostinn; frelsisunnendur og talsmenn borgaralegra réttinda laðast iðulega að hinum síðari. Í hvoru liðinu ert þú?




Skoðun

Sjá meira


×