Viðskipti innlent

80 milljarðar í samanlagðan hagnað

jón hákon halldórsson skrifar
Steinþór Pálsson segir eiginfjárhlutfall bankans vera með því hæsta sem gerist um víða veröld.
Steinþór Pálsson segir eiginfjárhlutfall bankans vera með því hæsta sem gerist um víða veröld. fréttablaðið/Daníel
Samanlagður hagnaður Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans nam 81 milljarði króna á síðasta ári. Hagnaður Landsbankans var mestur eða 29,7 milljarðar króna. Hagnaður Arion banka var 28,6 milljarðar og hagnaður Íslandsbanka 22,8.

Í tilfelli allra bankanna hefur sala á eignum og breytingar á virðismati eigna mikil áhrif. Landsbankinn birti uppgjör sitt í gær.

„Afkoma Landsbankans á árinu 2014 var góð og fjárhagsstaðan er traust. Eiginfjárhlutfallið er með því hæsta sem þekkist meðal banka um víða veröld og lausafjárstaðan með ágætum, þrátt fyrir að bankinn hafi greitt út 20 milljarða króna arð til hluthafa á árinu, töluverðan útlánavöxt og verulega fyrirframgreiðslu inn á skuld bankans við LBI hf.,“ segir Steinþór Pálsson í afkomutilkynningunni. Eigið fé bankans nam í lok árs 2014 um 250,8 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 29,5%.

Íslandsbanki og Arion birtu uppgjör sín fyrr í vikunni. Íslandsbanki telur að hagnaðurinn muni dragast saman á næstu árum þegar ekki komi til sala eigna og virðismatsbreytingar. Arion banki stefnir hins vegar á sölu eigna í ár, bæði á hlut í Reitum og Símanum. Mikið hefur verið hagrætt í starfsemi bankanna að undanförnu. Á síðasta ári fóru 57 starfsmenn frá Landsbankanum og 50 frá Arion. Á síðustu þremur árum hafa 250 farið frá Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×