Viðskipti innlent

Segir hátt vaxtastig valda síðri lífskjörum

Ingvar Haraldsson skrifar
Jón Helgi Egilsson Varaformaður bankaráðs Seðlabankans segir mikilvægt að þeir sem sitji í Peningastefnunefnd átti sig á skaðsemi hærra vaxtastigs.
Jón Helgi Egilsson Varaformaður bankaráðs Seðlabankans segir mikilvægt að þeir sem sitji í Peningastefnunefnd átti sig á skaðsemi hærra vaxtastigs. fréttablaðið/gva
Viðvarandi hærra vaxtastig hér á landi miðað við í nágrannalöndum kemur niður á samkeppnishæfni fyrirtækja, ýtir undir verðbólgu og gengissig sem kemur niður á lífskjörum og dregur úr kaupmætti launa. Þetta er niðurstaða rannsókna Jóns Helga Egilssonar, doktorsnema í hagfræði við Háskóla Íslands og varaformanns bankaráðs Seðlabanka Íslands.

Jón Helgi segir að sé fjármagnskostnaður hærri á Íslandi miðað við helstu viðskiptalönd valdi það hærri framleiðslukostnaði sem þurfi þá með einhverjum hætti að bæta upp og líklegt sé að það sé í formi lægri launa.

„Hærri framleiðslukostnaður kemur fram í hærra verðlagi sem dregur úr samkeppnishæfni innlendra aðila. Ein afleiðing þess er minni útflutningur og meiri innflutningur sem veikir gengi krónunnar sem aftur leiðir af sér verðbólgu og skertan kaupmátt,“ segir Jón Helgi.

Hærri vextir geta valdið landflótta

Samanburður á kaupmætti milli landa valdi kröfu um áþekk laun og í nágrannalöndunum að hans sögn. Sé gengið að þeim kröfum við óbreytt vaxtastig valdi það frekari verðbólgu og gengisfellingum segir Jón Helgi.

Þá bætir Jón Helgi við að ef það þurfi að bæta upp hærri fjármagnskostnað með lægri launum geti það stuðlað að því að ungt og vel menntað fólk flytji úr landi. Aðilar sem séu tilbúnir að sætta sig við lægri kaupmátt flytji þá frekar til landsins. „Það stuðlar þá að því að hér sé byggt upp láglaunaland“, segir Jón Helgi.

Mikilvægt að vextir fari lækkandi

Jón Helgi segir mikilvægt að þeir sem fari með stjórn peningamála hér á landi átti sig á afleiðingum viðvarandi hærra vaxtastigs. „Aðalatriðið er að menn skilji skaðsemi af því að viðhalda hærra vaxtastigi og fikri sig þá í átt að nýju jafnvægi með lægra vaxtastigi,“ segir Jón Helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×