Skoðun

Mengunarvaldur í vanda

Jón Gíslason skrifar
Bæjarstjórinn á Ísafirði hefur komið með rangfærslur um afleiðingar mengunar frá sorpbrennslu í Engidal. Í stað þess að gera hreint fyrir sínum dyrum neitar hann bótaskyldu, býður þó einhverjar bætur fyrir mengunartjón, en reynir um leið að koma sök á aðra.

Má menga?

Bæjarstjórinn segist aldrei hafa séð gögn um díoxínmengun í kjöti úr Engidal marktækt yfir mörkum. Segir að þetta kunni að hljóma undarlega og undir það skal tekið, því mengun hefur mælst víða. Til eru hámarksákvæði og aðgerðarmörk fyrir díoxín og eru aðgerðarmörkin lægri, s.s. fyrir afurðir af sauðfé og nautgripum. Upphaf málsins má rekja til greiningar MS á mjólkursýni sem sýndi mengun af díoxíni og skyldum efnum yfir hámarksgildi. Mengunin var staðfest af Matvælastofnun. Framleiðandi stöðvaði í varúðarskyni dreifingu osta sem gátu verið úr mjólk úr Engidal og Matvælastofnun stöðvaði dreifingu mjólkur frá býlinu þar sem mengun var staðfest.

Mengað kjöt

Mengun mældist einnig í nautakjöti marktækt yfir hámarksgildi. Framleiðandi innkallaði í varúðarskyni nautakjötsafurðir og neytendur voru upplýstir. Sýni af lambakjöti sýndu að tvö voru eðlileg miðað við bakgrunnsgildi fyrri mælinga, lítil hækkun var í tveimur, en meiri í þremur og þar af eitt yfir hámarksákvæði, þó ekki marktækt. Þetta hengir bæjarstjórinn sig á. Þar sem mælingin sýndi ekki marktæka niðurstöðu yfir hámarksgildi, þá gæti mengunin verið minni. Með sömu rökum gæti mengunin einnig verið meiri! Eigum við þá að láta sem ekkert sé?

Kröfur um upplýsingar

Sláturleyfishafinn ákvað í varúðarskyni að innkalla tiltekið lambakjöt. Samkvæmt matvælalöggjöf skal upplýsa neytendur og innkalla vöru ef nauðsynlegt er til að tryggja heilsuvernd. Þá voru þrjú fyrirtæki búin að grípa til ráðstafana vegna osta, nauta- og lambakjöts. Engu að síður er því haldið fram að Matvælastofnun hafi valdið uppnámi með innköllun lambakjöts frá Evrópu. Þetta er rangt og hefur stofnunin ekkert vald til þess. Hins vegar voru veittar upplýsingar þegar fjallað var um málið í erlendum fjölmiðlum, enda mikilvægir markaðir fyrir íslenskar afurðir í hættu ef ekkert væri að gert.

Koma sök á aðra

Nýjasta útspil bæjarstjórans er að viðurkenna að sýni af nautahakki hafi verið lítillega yfir öryggismörkum. Var það allt og sumt? Í haust lýsti hann því yfir að bændum yrðu boðnar bætur með fyrirvara um að ekki væri útilokað að sækja þær til Matvælastofnunar. Er ekki rétt að staldra við og spyrja hver hafi valdið og borið ábyrgð á menguninni, hver unnið með afleiðingar hennar og af hverju brennslunni var lokað?

Skuldadagar

Samkvæmt frétt í október átti að sækja bætur til Matvælastofnunar fyrir að hafa slátrað gripum án fullnægjandi gagna eða rökstuðnings. Þetta var leiðrétt því stofnunin tók aldrei slíka ákvörðun. Nú á slátrun að vera afleiðing af usla eftir innköllun í Evrópu. Enn er rangt farið með. Matvælastofnun gat hins vegar ekki heimilað dreifingu afurða nema fyrst færu fram viðamiklar mælingar. Mengun búpenings með díoxíni er ekki dýrasjúkdómur og því ekki forsendur til að fyrirskipa slátrun. Vandamálið er uppsöfnun mengunarefna sem skila sér í mjólk og kjötafurðir. Hefði slátrun verið fyrirskipuð hefði bótaskylda að líkindum færst á ríkið. Af því varð ekki og auðvelt að skilja gremju þeirra sem sitja uppi með eigið mengunartjón.

Að axla ábyrgð

Matvælastofnun skipaði sérfræðihóp til að fara yfir mengun í búfé og framtíð búskapar í Engidal. Hópurinn skilaði vandaðri skýrslu og þá var framkvæmd beitartilraun með stuðningi Landssamtaka sauðfjárbænda. Niðurstöður sýndu að svæðið hentar aftur til búskapar, en vakta þurfi afurðir í fyrstu. Það er mikilvægt ef vart verður mengunar að brugðist sé við gagnvart mengunarvaldi og að réttur neytenda til upplýsinga og öruggra afurða sé virtur. Matvælastofnun og fyrirtæki hafa axlað þessa ábyrgð og það gerði Ísafjarðarbær með lokun brennslunnar. Undir bótum standa svo þeir sem ábyrgir voru fyrir menguninni.




Skoðun

Sjá meira


×