Innlent

Bjarni líkir höftunum við rottueitur

Jakob Bjarnar skrifar
Ef Ísland á ekki að drepast eins og úr smáum reglulegum skömmtum rottueiturs, er algjör nauðsyn að aflétta hér höftum.
Ef Ísland á ekki að drepast eins og úr smáum reglulegum skömmtum rottueiturs, er algjör nauðsyn að aflétta hér höftum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir fjármagnshöftin sem íslenskt efnahagslíf býr við seigdrepandi og líkti þeim við rottueitur. „Þetta er eins og að taka reglulega inn rottueitur í smáum skömmtum. Þú finnur ekki fyrir áhrifunum, ekki milli daga, jafnvel milli vikna en smátt og smátt munu afleiðingarnar reynast alvarlegar.“

Bjarni lét þessa skoðun uppi í forsíðuvitali nýs tölublaðs Hjálma, sem er blað hagfræðinema við HÍ. Viðtalið er ítarlegt og þar segir Bjarni meðal annars:

„Það er alveg skýrt í mínum huga að við þurfum að losna við höftin. Þau eru afar skaðleg til langs tíma, en þau geta hins vegar verið hjálpleg til skamms tíma til að ná jafnvægi í þjóðarbúinu. Það sem skiptir máli er að það jafnvægi sé á raungengi sem er í einhverjum takti við það sem við erum að framleiða. Við sjáum það á viðskiptajöfnuðinum núna að raungengið virðist ekki vera langt frá því að endurspegla þá framleiðslu sem við stöndum undir í dag. Að þessu leytinu til hafa höftin verið gagnleg, en þau voru ávallt bara hugsuð sem skammtímaúrræði. Jafnvel þó það kunni að vera auðvelt að aðlagast höftunum eftir því sem tíminn líður og maður verður minna var við þau, þá er þetta dálítið eins og rottueitur. Þú tekur þetta í litlum skömmtum og þú finnur ekki endilega bragðið af því, en þetta safnast fyrir í líkamanum og drepur þig fyrir rest. Það er það sem gerist með höftin yfir tíma, þau bjaga alla verðmyndun og hvatarnir verða allir skakkir.“

Bloomberg vitnar jafnframt í orð Bjarna. Þar er því lýst að flestir Íslendingar leiði ekki hugann að haftabúskapnum sem tekinn var upp eftir hrunið 2008, enda virðist allt í sómanum á yfirborðinu; þess er vænst að hagvöxtur verði um fjögur prósent, atvinnuleysi er undir fjórum prósentum, gjaldmiðillinn virðist stöðugur og tekist hefur að halda verðbólgu í skefjum.

En, þessi mynd er bjöguð, eða fölsk, vegna fjármálahaftanna. Innlendir fjárfestar komast hvergi með peninga sína og fjárfesta í því sem þeir finna innan markaðarins og erlend fjárfesting er engin.

(Uppfært 16.30. Skv. ábendingu en Vísir mælir sérstaklega með viðtali hagfræðinema við fjármálaráðherra.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×